139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vissulega er æskilegt að ráðherrar hafi sem mesta aðstoð frá starfsfólki ráðuneyta og er embættismönnum ætlað að framkvæma vilja ráðherrans. Til viðbótar hafa ráðherrar svo haft pólitískan aðstoðarmann sem hefur að miklu leyti, eins og dæmin sanna, einbeitt sér að því að hugsa um pólitíska stöðu ráðherrans út á við og sumir virðast jafnvel verja stórum hluta starfsdagsins í það að skrifa færslur á Facebook, svoleiðis að það er ólíku saman að jafna — annars vegar öflugu embættismannakerfi þar sem embættismenn vinna faglega að því að koma vilja ráðherrans og ríkisstjórnarinnar áfram og hins vegar aðstoðarmönnum sem færa inn athugasemdir á netinu og tala máli ráðherrans út á við í fjölmiðlum. Það er kannski allt í lagi að ráðherrar hafi slíka aðstoðarmenn líka og jafnvel að fjölga þeim þegar þeir hafa efni á því (Forseti hringir.) og hafa þá efni á því að jafna leikinn gagnvart þinginu.