139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta og mjög athygliverða ræðu. En mig langaði að nota þann stutta tíma sem ég hef til að spyrja hv. þingmann sem sat í þingmannanefndinni svokölluðu hvert mat hennar sé á því með hvaða hætti sé komið til móts við þær tillögur sem þar komu fram og þær ábendingar sem þingmannanefndin kom á framfæri í skýrslu sinni sem var byggð á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þar er sérstaklega tekið fram og talsvert talað um oddvitaræði og jafnframt um það verklag sem hefur tíðkast innan stjórnsýslunnar að það þurfi að skerpa á valdsviði og ábyrgðarsviði ráðherra. Telur þingmaðurinn að hér sé gengið nægilega langt til þess að koma til móts við þær ábendingar sem þar koma fram og þær tillögur sem samþykktar voru á Alþingi að þessu leyti?