139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:28]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðu hennar. Ég vildi geta þess að mér finnst viðhorf hennar eins og þau birtust í ræðunni og í störfum í allsherjarnefnd einkennast í mörgum efnum af meira raunsæi hugsanlega en hjá ýmsum öðrum, en látum það liggja milli hluta. Ég deili t.d. því sjónarmiði hennar að upptökur af ríkisstjórnarfundum, hljóðritanir, geti breytt eðli ríkisstjórnarfunda með þeim hætti að þau mál sem ráðherrar telja viðkvæm flytjist einfaldlega út fyrir vettvang ríkisstjórnarfunda og að hugsanlegt sé, þó að við vitum það auðvitað ekki og það geti verið misjafnt í framkvæmd, að einstakir ráðherrar hagi orðum sínum og athöfnum á ríkisstjórnarfundum með öðrum hætti en ella hefði verið. Að minnsta kosti er ég þeirrar skoðunar að sú breytingartillaga sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til sé ekki nægilega mótuð og ekki búið að hugsa nægilega út í það hverjar afleiðingarnar verða ef hún nær fram að ganga. En nóg um það.

Hv. þingmaður hefur gert grein fyrir þeim fyrirvara sem hún gerði við nefndarálitið og það er því nærtækt að spyrja hv. þingmann hvort hún muni greiða atkvæði með þessari breytingartillögu þegar hún kemur hér til atkvæða eða ekki þegar á það reynir. Það er ljóst að fyrir utan 2. gr. og raunar ýmsar aðrar greinar er þetta meðal þeirra breytinga sem hvað mesta athygli vekur og er augljóslega umdeilt bæði innan þings og utan.