139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var annað atriði í ræðu hv. þingmanns sem vakti athygli mína. Eftir því sem ég skildi best tók hún jákvætt í nálgun eða tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur sem talaði fyrr í dag um að ráðuneytaskipan eða breytingar á ráðuneytum, þá væntanlega stofnun og aflagning ráðuneyta m.a., kæmu til þingsins til afgreiðslu í formi einhvers konar þingsályktunartillögu eftir reglum sem á kannski eftir að útfæra nánar. Ég vildi inna hv. þingmann aðeins nánar eftir því hvort hið jákvæða viðhorf hennar sem ég þóttist skynja gagnvart tillögu hv. þm. Eyglóar Harðardóttur væri fyrst og fremst útrétt sáttarhönd eða hvort hún gæti tekið undir það efnislega að gott væri að þessi mál yrðu borin undir þingið.