139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:35]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var ekki rætt sérstaklega. Það mætti alveg hugsa sér að það ætti að ráða menn inn í Stjórnarráðið og þeir yrðu svo fluttir á milli deilda. Nú er ég bara að bregðast við spurningunni, en þegar ég hugsa aðeins lengur um það held ég að það sé betra að hafa þetta svona. Ef ég ræð mig til fyrirtækis ræð ég mig þar inn í einhverja deild. Ég vil ekkert láta færa mig annað nema ég samþykki það og geri heldur ekki ráð fyrir því ef ég stjórnaði einhverri deild í fyrirtæki og allt í einu væru mér sendir einhverjir til að vinna hjá mér. Ég held að þetta sé allt í lagi eins og það er.

Á hinn bóginn eru þessir múrar þannig, eins og virðulegi forseti veit, að starfsmenn tveggja ráðuneyta telja sig oft og tíðum ekki geta talað saman og ekki átt samskipti vegna þess að þeir þurfa að fara langar leiðir í stað þess að talast beint við og vinna verkefnin saman. Ég held að mikill greinarmunur sé gerður á því hvort múrarnir eru teknir niður eða hvort starfsmenn lendi í því að hægt sé að henda þeim til og frá eins og yfirmönnum sýnist. Ég held að það sé munur þar á. Það eru mín fyrstu viðbrögð.