139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseta. Áður en ég hef ræðu mína langar mig að bregðast aðeins við þeim skoðanaskiptum sem við áttum saman hér, við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, vegna ræðu hennar. Ég tel nokkuð augljóst að flækjustigið verði meira, það verði einfaldlega flóknara að fylgja málum eftir. Í stað þess að við formgerum og erfiðara verði að breyta því hvar einstakir málaflokkar liggja sé þetta vald fært til forsætisráðherra, sem geti þá með stuttum fyrirvara fært verkefni af einum stað til annars, sé einmitt hætta á að erfiðara verði fyrir þingið sem og aðra aðila að fylgja þeim málum eftir og þar af leiðandi verði formfestan minni. Þetta er sennilega eitt dæmi þess sem við ætluðum að gera í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og var fjallað um en ég tel að þarna hafi meiri hluta allsherjarnefndar mistekist það hlutverk.

Frú forseti. Þetta er 2. umr. þessa máls og þetta er á margan hátt sérkennilegt frumvarp. Það hefur verið upplýst að þegar það kom fram upphaflega hafi einn ráðherra lýst því yfir að hann mundi ekki styðja það og annar hafi setið hjá við þá afgreiðslu. Þegar hæstv. forsætisráðherra flutti framsögu þessa máls í þinginu upplýsti hæstv. forsætisráðherra í andsvörum að hún hefði ekki hugmynd um það, frú forseti, hvort málið hefði meiri hluta í þinginu eður ei. Þetta var mjög sérkennilegt þar sem í forsvari fyrir frumvarpið er forsvarsmaður ríkisstjórnar og ekki að fjalla um eitthvert smámál heldur um það með hvaða hætti Stjórnarráðið er uppbyggt. Það er kannski sá vandi sem við erum að fjalla um í þessu máli, að það eru svolítið sérkennilegar aðstæður. Við allar venjulegar aðstæður, hjá venjulegri ríkisstjórn þar sem menn létu pólitíska hagsmuni skipta meiru en að sitja á valdastólunum, mundu menn væntanlega standa upp og neita því að svona mál kæmu fram. Það er svona liður í meirihlutastjórnun að ef menn ná ekki samkomulagi innan ríkisstjórnarinnar um það hvaða mál eiga að fara fram komi þau ekki fram, en ef þau koma fram í krafti gerræðis eða einhvers konar valds annars stjórnarflokksins, eða forsætisráðherra í þessu tilviki, hafi ráðherrar alltaf þann möguleika að segja: Nei, hingað og ekki lengra, ég tek ekki þátt í þessu, ég styð ekki ríkisstjórn sem heldur áfram á þessum nótum.

Þetta er auðvitað enn sérkennilegra í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur minnsta mögulegan meiri hluta á þingi og það kom síðan bersýnilega í ljós þegar málið kom til afgreiðslu á þessum hauststubbi, septemberstubbi, þar sem var kannski fyrst og fremst ætlast til að taka til afgreiðslu mál sem menn voru nokkuð sammála um. Þá var bægslagangur allnokkur á að koma þessu máli í gegnum allsherjarnefnd og á föstudegi einum mistókst það vegna þess að einn stjórnarþingmaðurinn greiddi þá atkvæði gegn því og reyndar einn stjórnarandstöðuþingmaður líka sem þó höfðu lýst yfir stuðningi við það áður. Þeir komu í veg fyrir að málið yrði tekið út þann dag og kröfðust þess að sett yrði inn í þetta ákvæði sem við ræddum hér áðan um hljóðupptökur af ríkisstjórnarfundum. Þeir fengu það í gegn sem ég held að sé á margan hátt misráðið og þyrfti að leggjast yfir og yfirvega hvort sé skynsamlegt og hvort það sé ekki þannig að það gangi akkúrat gegn tilgangi sínum. Væntanlega er hugmyndafræði þeirra sem vilja koma því þarna inn að það sé til að auka gegnsæi og skilvirkni og tryggja ábyrgðarkeðju ráðherra og eitthvað slíkt. Ég óttast, í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór milli okkar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og reyndar fleiri þingmanna, að hættan sé sú að umræðuefnið, ef viðkvæmt er, færist einfaldlega út af ríkisstjórnarfundunum og það gerist með þeim hætti að þá verður ákvörðunin ekki einu sinni tekin á ríkisstjórnarfundunum og að minnsta kosti ekki þau rök sem fyrir liggja og þannig mun ólíkum ráðherrum ekki gefast tækifæri til að bóka mótmæli eða andstöðu við málið.

Þetta eru allt hlutir sem við þekkjum úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, svona gerðust hlutirnir áður og þetta er eitthvað af því sem við ætluðum að bregðast við.

Eins og ég segi er ein af ástæðum þess að þetta mál er svona sérkennilegt sú að það kemur hingað inn í þingið án þess að fyrir því sé tryggur meiri hluti og það hafa verið gríðarleg átök á bak við tjöldin um þetta mál. Fyrst komu hér inn hugmyndir um að fækka ráðuneytum og það var gert í sambandi við velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið en ríkisstjórnin varð að gefast upp á því að sameina ráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti, þ.e. iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, einfaldlega vegna þess að ekki var meiri hluti fyrir því. Í kjölfarið á því að menn guggnuðu á því að fara með það mál hér í gegn kom þetta stjórnarráðsfrumvarp fram. Því er ekki að leyna að Samfylkingin, sem hæstv. forsætisráðherra er jú formaður fyrir og leiðir ríkisstjórnina, hefur haft gríðarlegan áhuga á því að setja þetta á laggirnar á meðan andstaðan hefur verið innan hins stjórnarflokksins, Vinstri grænna. Þess vegna hefur verið tortryggni á milli stjórnarflokkanna að það er eiginlega átakanlegt á að horfa.

Ég hef oft rætt það í þessum stóli á liðnum missirum að mér finnst að núverandi ríkisstjórn sé oft og tíðum að nota tækifærið, jafnvel í krafti eins lítils meiri hluta og hægt er, til að gjörbylta og breyta samfélaginu án þess að um það sé nægileg sátt, nægileg umræða, og þar af leiðandi verða átökin og tortryggnin um mál miklu meiri en eðlilegt væri. Núna þegar við erum að fjalla um breytingar á Stjórnarráðinu og setjum það inn í lög og eyðum miklum tíma í það, bæði í nefndum þingsins sem og í umræðum hér í þingsal, er augljóst að ef við hefðum náð meiri sátt um þetta mál frá upphafi er líklegra að það mundi halda einhvern tíma og við værum að gera breytingar sem fleiri en kannski minni hluti ríkisstjórnarinnar væru sammála um að sé skynsamlegt. Það mundi síðan þýða að í kjölfarið á næstu kosningum, sem vonandi verða nú sem fyrst, og örugglega með breytingu á ríkisstjórnarmynstri, mundu minnka líkurnar á því að menn tækju öll þau mál sem er búið að þröngva hér í gegn í ósætti og átökum og breyta þeim hugsanlega aftur í fyrra horf eða eitthvert annað horf, þ.e. að við mundum vinna á skynsamlegri hátt að því að breyta samfélaginu. Það mun auðvitað þýða að allir þeir sem vilja breyta miklu og bylta munu ekki fá sitt fram. Hlutirnir munu ganga hægar. Í slíku samfélagi er meiri sátt, það er meira samlyndi og það kallar þar af leiðandi á það að breytingarnar yrðu hreinlega skynsamlegri og yfirvegaðri.

Hér er því ekki til að dreifa, hér er valtað áfram, jafnvel með frumvarp sem enginn veit hvort meiri hluti er fyrir. Hér tala allir undir drep til að reyna að skýra sitt mál, reyna að kalla fram viðbrögð frá þeim stjórnarliðum sem vilja absalútt fá þetta mál hér í gegn og að heyra þau rök sem þar koma fram.

Í ræðu minni fyrr í vor var nú akkúrat á þeim tímapunkti mjög sérkennilegt andrúmsloft í þinginu í kjölfarið á því að ríkisstjórnin hafði heykst á því að sameina ráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti og í kjölfarið á því varð til ansi mikið bál í kringum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og umræða, sérstaklega þá frá hendi Samfylkingarinnar, snerist um að tortryggja vinnu og stjórnsýslu þess ráðuneytis. Meðal annars kom til tals skýrsla Ríkisendurskoðunar og hún endaði inni í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, var þar til umfjöllunar á einum fjórum, fimm eða sex fundum og átti væntanlega upphaflega að enda með einhverri skýrslugjöf til þingsins, en að lokum, eftir alla þá vinnu, dró meiri hlutinn í land og saltaði þá skýrslu því að það stóð ekki steinn yfir steini þegar búið var að skoða hvað þar stóð á bak við.

Það var þó meira að segja þannig að þegar á fyrsta fundi kom ríkisendurskoðandi fyrir nefndina og svaraði aðspurður að það væri ekkert öðruvísi með stjórnsýslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins en annarra ráðuneyta, stjórnsýslu þess ráðuneytis væri ábótavant sem og margra annarra. Þeir meintu ágallar sem áttu að vera á stjórnsýslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins reyndust síðan vera eitthvað annað en ágallar þegar betur var skoðað en menn bentu einmitt á ágalla í meðferð fjár í öðrum ráðuneytum.

Þetta var kannski dæmi um það hvernig umræðan er enn stödd. Hún er enn stödd í því að við erum hvert fyrir sig í mismunandi flokkum að tortryggja hvert annað og komumst ekki að því að setjast niður og reyna að vinna eitthvað fram fyrir okkur á skynsamlegan hátt þannig að við höldum þessari umræðu áfram.

Það er svo allt annað mál þegar við erum að fjalla um þetta frumvarp og þær hugmyndir sem voru um að setja á laggirnar eitt atvinnuvegaráðuneyti, og að færa það vald að nokkru leyti til hæstv. forsætisráðherra á hverjum tíma, að færa einstaka málefnaflokka til á milli ráðuneyta og færa þá vald þar, hvort það sé akkúrat það skynsamlegasta í ljósi íslenskra aðstæðna. Það er umræða sem væri mjög áhugavert að taka og velta fyrir sér. Ef við tækjum mikilvægi mismunandi atvinnugreina og settum það í samhengi við það stjórnkerfi sem við erum með, hvort það þyrfti ekki að efla annars vegar sjávarútvegs- og landbúnaðarkerfið þar sem sjávarútvegurinn er náttúrlega okkar almikilvægasta atvinnugrein, og landbúnaðurinn líka, og svo tökum við orkugeirann hins vegar og iðnaðinn og ferðamálin í iðnaðarráðuneytinu, sem eru líka öflugar stoðir. Og er þá skynsamlegt að skeyta þessu öllu saman í eitt ráðuneyti? Það er til að mynda búið að vera nokkuð augljóst að stofnun bæði velferðarráðuneytisins en sérstaklega innanríkisráðuneytisins hefur haft þær afleiðingar að ráðuneytin virðast vera orðin það stór að erfitt virðist vera fyrir einstaka ráðherra að fylgja öllum þeim málum eftir af þekkingu sem þar eru. Og þá vantar væntanlega það inn í að byggja þar upp innri þekkingu og þá er það spurningin hvort þetta sé skynsamlegasti tíminn sem við erum að þessu, sérstaklega í ljósi þess að við erum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og hvergi má veikja þær stoðir í atvinnulífinu sem eru okkur hvað mikilvægastar, eins og ég nefndi hér áðan, sjávarútvegur og landbúnaður, því að það eru þeir málaflokkar sem eru hvað erfiðastir í umræðunni og viðræðuferlinu. Það kemur hér í ljós í þinginu daglega og eins í fjölmiðlum ef við leitum þar eftir.

Það hefur auðvitað verið fjallað hér heilmikið í þessum ræðum um það að verið sé að færa vald frá þinginu og til forsætisráðherra. Ég held að það sé alveg óumdeilt, þó svo að þeir sem bera ábyrgð á meiri hluta allsherjarnefndar og koma hér inn, telji að svo sé ekki. Ég get ekki betur séð en að það sé nokkuð augljóst og til að mynda er í nefndaráliti 2. minni hluta, hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, fjallað um það í tveimur köflum. Það er augljóst varðandi 4. gr. frumvarpsins, þar sem kveðið er á um vald forsætisráðherra til að flytja málefni á milli ráðuneyta — það vald er, eins og við þekkjum í dag, alfarið Alþingis og við skipan ráðuneyta hafa þingflokkar stjórnarflokkanna nokkuð um það að segja hvaða ráðuneyti fellur til hvaða ráðherra. Með hinni nýju hugsun, sem kemur fram í þessu stjórnarráðsfrumvarpi, verður vald óbreyttra ráðherra mun óskýrara og þar með er dregið úr hinu pólitíska valdi þingflokka. Það má svo ræða hvort það sé skynsamlegt eða óskynsamlegt en það er augljóst að verið er að færa þarna vald frá þinginu.

Sumir halda sjálfsagt að það sé hið besta mál en þá skulu menn muna að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og síðar í þingmannaskýrslunni sem fór yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar og mótaði viðbrögð þingsins við henni, töldu menn það helst að í íslenskri stjórnsýslu að framkvæmdarvaldið væri orðið allt of sterkt og væri það á kostnað þingsins, þingið væri allt of veikt. Við þekkjum það nú mjög skýrt, sem störfum hér í þinginu, að við erum oft og tíðum að bregðast við framkvæmdarvaldinu frá einum degi til annars, vitum ekki einu sinni hvað er á dagskrá eftir nokkra klukkutíma því að þá er ekki búið að ákveða hvaða mál hvaða ráðuneyta fara á dagskrá. Það ætti auðvitað að vera þannig að við værum með löngum fyrirvara búin að setja niður hvaða mál við ætluðum að fjalla um og síðan yrði fjallað um þau á forsendum þingsins en ekki á forsendum framkvæmdarvaldsins, og framkvæmdarvaldið væri síðan í því að framkvæma það sem þingið setti lög um.

Mér finnst svolítið eins og hér sé verið að fara hina leiðina, að með þessum hætti sé verið að færa vald frá þinginu til forsætisráðherra sem gæti í einstaka málum tekið málefnasvið, menn hafa rætt það hér, að vegna þess að það sé eitthvað mikið að í einhverju ráðuneyta, of mikið að gera eða eitthvað slíkt, sé hægt að færa verkefni og þá geti forsætisráðherra fært það til einhvers annars.

Almennt séð við venjulegar aðstæður þar sem um væri að ræða venjulegt meirihlutastjórnarsamstarf, ég tala nú ekki um ef það væri minnihlutastjórn, mundu menn væntanlega ekki sætta sig við að slíkt yrði gert án þess að allir væru sammála um að þetta væri framgangsmátinn. Við þær aðstæður sem við horfum á í dag, eins og ég sagði í upphafi máls míns, upplifum við það sérkennilega ástand hér hjá núverandi ríkisstjórn að einstakir ráðherrar eru í fullkominni andstöðu við yfirlýsta stefnu, að minnsta kosti hæstv. forsætisráðherra, en sitja engu að síður sem fastast og þeirra flokkur virðist, þ.e. flokkur þeirra ráðherra sem — það er svo sem hægt að segja það alveg skýrt, það er oftast nær þingflokkur Vinstri grænna sem virðist sætta sig við það að ráðherrar þeirra þurfi að sitja uppi með að greiða atkvæði gegn málum eða sitja hjá í fleiri en einu og tveimur málum í sömu ríkisstjórninni án þess að ráðherrarnir hóti því að segja af sér og stöðva þetta ríkisstjórnarsamstarf eða þingflokkarnir berji þá í borð og segi að þetta gangi ekki lengur. Við horfum líka upp á það að þingflokkar bóka hvor gegn öðrum og margt bendir til þess að það gæti átt sér stað, við aðstæður af þessu tagi, að vald forsætisráðherra yrði gríðarlegt, hann gæti fært mál með gerræðishætti frá einu ráðuneyti til annars án þess að nokkur segði neitt til að missa ekki sína valdastóla. Þetta gæti þess vegna gengið í ein fjögur ár, ef allt færi nú á versta veg.

Ég held að það sé nokkuð skýrt að í þessari breytingu sé talsverð áhætta fólgin.

Ég ræddi þetta við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur áðan, spurði hvort þingmaðurinn óttaðist ekki að það væri fólgin í því minni formfesta, að hætta væri á því að erfiðara yrði að rækja eftirlitshlutverk Alþingis annars vegar og eins annarra aðila sem þurfa að fylgjast með kerfinu ef þessi lausung væri komin á þá starfsemi, þ.e. að forsætisráðherra einn og sér, án þess að bera það undir þingið á nokkrum tímapunkti, gæti fært verkefni á milli ráðuneyta og jafnvel fært ráðuneyti til og lagt þau niður. Ég fullyrði að það er klárlega minni formfesta fólgin í því og að það sé ekki eitt af því sem við komumst að niðurstöðu um í þingmannaskýrslunni sem við samþykktum hér 63:0. Þar var alveg klárlega verið að leita eftir því að festa í sessi þá formfestu að viðkomandi fagráðherra væri ábyrgur fyrir sínum verkum og sinni stöðu og ekki þyrfti að leita í fundargerðum, eða fara út og leita annars staðar í einhverjum dagbókarfærslum á netsíðu forsætisráðuneytisins, til að átta sig á því á hvaða tíma hvaða málefni væri heldur væri það alveg skýrt að viðkomandi fagráðherra bæri ábyrgð á þessu verki. Menn höfðu miklu meiri áhyggjur af hinu gagnstæða, þ.e. að ekki væri ljóst hvaða ráðherra færi með ábyrgðina í málum þar sem fleiri en einn ráðherra kæmu að málum.

Það er áleitin spurning, ef við teljum einhverja skynsemi fólgna í þeirri hugmyndafræði að styrkja vald forsætisráðherra með þessum hætti — og það hefur komið hér fram að sums staðar á Norðurlöndunum er þetta fyrirkomulag haft. Ef það er skynsamlegt, erum við þá að tala um að forsætisráðherrann beri miklu ríkari ábyrgð á öllum málum? Ber þá forsætisráðherrann í raun og veru bæði hina pólitísku en líka hina faglegu ábyrgð? Er það þannig? Þurfum við þá ekki að skýra það líka ef við göngum alla þessa leið?

Þegar við síðan förum að bera okkur saman við eitthvað sem hefur viðgengist annars staðar, ef við ætlum að breyta hlutum verðum við að breyta þeim hægt og við verðum að læra á breytingarnar og þær verða að koma smátt og smátt inn í samfélagið og sú hugsun með hvaða hætti hvert verk og ábyrgðarsvið virkar.

Eitt atriði sem var hins vegar harðlega gagnrýnt, bæði í skýrslu rannsóknarnefndar og þingmannanefndarinnar, var oddvitaræðið og það verklag sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum, að það dragi úr samábyrgð og veiki fagráðherra og, eins og hefur verið nefnt áður, að þó nokkur dæmi séu um að ákvarðanir hafi verið teknar án umræðu í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt.

Ég get ekki betur séð en að með því að hringla í því hver sé með hvaða málefni á hverjum tíma sé verið að færa meira vald til oddvitans, þ.e. forsætisráðherra í þessu tilviki og þá væntanlega formanna stjórnarflokka sem koma saman að ríkisstjórnarsamstarfi á hverjum tíma, ef hægt er að gera það án þess að fagráðherrann hafi nokkuð um það að segja og Alþingi sé ekkert upplýst um það frekar en gert var áður. Við þurfum bara að lesa um það eða læra um það af sögubókum. Þetta verkferli þarf að innleiða fyrr og menn þurfa að læra á það hvað við ætlum að fara að gera. Það þýðir ekki að breyta þessu öllu einn, tveir og þrír án þess að geta útskýrt það skýrt hvernig menn ætla til að mynda að tryggja að ráðherraábyrgðarkeðjan haldist. Hún klárlega bæði slitnaði og aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, meðal annars þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir ábyrgðarsvið þeirra eða einstökum ráðherrum var haldið óupplýstum um þau mál sem þeir hefðu sjálfir átt að fjalla um en aðrir fjölluðu um.

Þingmannanefndin dró þá ályktun og þingið samþykkti hana 63:0 að gera yrði breytingar á lögum og reglum og koma þannig í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra. Ég get ekki betur séð og skilið af þessu frumvarpi en að þarna sé verið að færa vald til forsætisráðherra sem gerir það að verkum að það séu auknar líkur á að valdsvið tveggja eða fleiri ráðherra skarist og að það sé mjög líklegt að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra. Og þá kemur að því hvernig á að tryggja að formgera þessar breytingar þannig að allir viti á hverjum tíma hver fer með hvaða vald og hver ábyrgð hvers er.

Þarna sýnist mér hugmyndafræðin ganga út á að breyta það miklu að menn sjái nú ekki alveg fyrir endann á því hvort þetta gangi eftir. Það hefur verið lenska á Íslandi, í íslenskri stjórnsýslu, að hafa hana formlausa. Í litlu landi með stuttar boðleiðir þar sem flestir þekkja alla, hafa ýmist verið í skóla saman eða tengjast jafnvel fjölskylduböndum, sé auðveldara að taka ákvarðanir með því að hringja beint í staðinn fyrir að halda formlega fundi.

Ég lýsi því hér yfir að ég óttast þessa breytingu, að hún geri það að verkum að það mistakist algjörlega að koma meiri formfestu á stjórnsýsluna og að við þurfum að ganga hægar um þessar gleðinnar dyr, áður en við göngum svona langt í breytingum verðum við að vera búin að læra hvernig við skrifum fundargerðir, hvernig við birtum þær, hvernig við aukum eftirlitshlutverk þingsins og hvernig við styrkjum þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég tel að það sé algjört lykilatriði áður en við göngum svona langt. Það getur vel verið að við komumst að því á einhverjum öðrum tíma, við aðrar aðstæður, þegar þetta er lært, að þetta sé ekkert óskynsamleg leið til að stýra því hvernig svona verk geta flotið á milli ráðuneyta eða þá réttara sagt að forsætisráðherra beri meiri ábyrgð á því að ráðherrar vinni þá vinnu sem ríkisstjórnin ákvað. Það sé þá svona ákveðið, það sé hægt að gera það á einhvern annan hátt en við þekkjum í dag þar sem tveir formenn ríkisstjórnarflokka hafa tekið þessar ákvarðanir án þess að bera þær undir aðra.

Áður en það gerist verða menn að vera vissir um að allt þetta sem ég hef verið að lýsa virki og það er ég í miklum vafa um að gangi eftir. Mér sýnist, og ég fjallaði um það í fyrri ræðu minni, að flest af því sem hér kemur fram sé ekki sprottið upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða þingmannanefndarinnar heldur skýrslu vinnuhóps hæstv. forsætisráðherra sem settur var á laggirnar til að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skilaði eftir mjög stuttan tíma og fékk lítinn tíma til að leggjast yfir hlutina.

Nú kom líka í ljós í umræðunum í vor að hæstv. forsætisráðherra sagði þetta plagg, svo að ég vitni nú hér í fyrri ræðu, hafa verið vel unnið og hafa verið í tvö ár í vinnslu. Þetta kom sem sagt fram á eins árs afmæli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þannig að það var augljóst að vinnan var að hluta til unnin löngu áður og síðan komu aðrir hlutir þar inn í.

Látum það nú vera, það er að minnsta kosti ekki hægt að fela sig á bak við það að hér sé verið að taka skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar og umbreyta því í stjórnarráðsfrumvarp. Það er augljóst að svo er ekki, þar skortir verulega á samhengi hlutanna.

Mig langar aðeins að ræða um fundargerðir, um fundargerðirnar í breytingartillögunum frá meiri hlutanum. Þá er búið að bregðast við einhverju af því sem ég og fleiri nefndu hér í vor og hefur sjálfsagt verið rætt í allsherjarnefnd líka, um nauðsyn þess að taka niður og skýra og skrá þau mál sem koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar og að hægt sé að færa ákveðna hluti í trúnaðarmálabók sem ekki koma þá fyrir sjónir almennings fyrr en — ja, kannski aldrei eða að upplýsingalögin taki á því.

Ég nefndi í ræðu minni að hitt stjórnsýslustigið í landinu, þ.e. sveitarstjórnarstigið, þekkir það mjög gerlega að þar eru haldnar fundargerðir og þær eru birtar samdægurs eða daginn eftir, þær bókanir sem þar koma fram. Þar geta þar af leiðandi allir — þar er ekki bara um að ræða eftirlit þingsins heldur getur bara allur almenningur í viðkomandi sveitarfélagi, og reyndar á öllu landinu og í heiminum þess vegna, þegar þetta er komið á netið, fylgst með því hvernig ákvörðunartakan er á sveitarstjórnarstiginu.

Ég hef ekki getað skilið af hverju ríkisstjórnarfundir geta ekki heyrt undir sams konar hugsunarhátt. Það mundi auðvelda möguleika þingsins á að fylgjast með því hvað fram fer á ríkisstjórnarfundum og þar af leiðandi veita framkvæmdarvaldinu eðlilegt aðhald, auka eftirlit með störfum þess, ákvarðanatöku og hvort þær ákvarðanir sem teknar eru í þinginu og eru færðar framkvæmdarvaldinu til að útfæra komi á dagskrá.

Það hefur verið upplýst og ég hef heyrt það áður og kynnt mér það að í upplýsingalögunum séu ákvæði um að fundargerðir verði birtar eftir eitt ár. Það mun auðvitað ekki hjálpa þinginu að hafa daglegt eða vikulegt eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Það er meira í sögulegu samhengi og hægt að fara yfir það eftir á ef upp kemur aftur slíkt klúður og vandræði sem urðu á árinu 2008. En það mun ekki hjálpa neitt til í daglegum störfum þingsins við að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu.

Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég tel að þurfi að skoða betur.

Annað atriði sem við ræddum hérna fyrr var þessi hljóðupptaka á fundum og það að geyma upptökurnar síðan í 30 ár. Ég óttast að þessar hljóðritanir nái ekki tilgangi sínum og hafi gagnstæð áhrif, þ.e. að um þau mál sem eru viðkvæm verði ekki fjallað á ríkisstjórnarfundum. Það yrði verra — ef það yrði niðurstaðan að þetta frumvarp yrði að lögum og þetta vald forsætisráðherra yrði staðreynd, að það verði að færa verkefni frá einu ráðuneyti til annars á mismunandi tímum — að fagráðherra í ákveðnum málaflokkum og hugsanlega úr öðrum stjórnarflokki en hæstv. forsætisráðherra viti hreinlega ekki hvað sé gert og geti þar af leiðandi ekki mótmælt af því að umræðan fer ekki fram á ríkisstjórnarfundunum út af því að þeir eru hljóðritaðir.

Þetta eru vangaveltur sem fleiri hafa verið með en ég og er eitt af því sem gerir það að verkum, að ég held, að nefndin er ekki búin að fara yfir þessa hluti. Þetta eru gríðarlega mikilvægir hlutir, hvernig við komum fram í sambandi við fundargerðir annars vegar af ríkisstjórnarfundum, einnig af fundum formanna flokka, af fundum ráðherra með ráðuneytisstjórum og síðan þeim samráðshópum sem hugsanlega yrðu settir á, og það þarf að gera það með ákveðinni formgerð líka en ekki eins og gert var hér fyrr á árum þar sem þeir voru í einhverju lauslegu sambandi og ekki var ljóst hvaða upplýsingar færu hvert.

Eitthvað af þessu hefur komið hér inn eins og til að mynda í breytingartillögu varðandi líklega 6. eða 7. gr. en engu að síður, já, í 11. gr.: „Færa skal skrá um samskipti og alla fundi milli ráðuneyta Stjórnarráðsins sem og við aðila utan þess.“ Það er mikilvægt en þá kemur líka að því hvaða fundir ættu að vera með fundargerð sem fylgir. Um þetta var talsvert rætt og fjallað í þingmannanefndinni á síðasta ári og er hluti af því að formgera stjórnsýsluna. Eins og ég hef stundum sagt áður, þetta hljómar kannski eins og það geri hana bæði þunga og leiðinlega en þetta er eitt af því sem skiptir máli við það að vita hver tekur hvaða ákvörðun og hver kemur ekki að viðkomandi máli. Margir Íslendingar hafa verið hrifnir af þessum stuttu boðleiðum og einfaldleika en breytingin þýðir auðvitað að þær verða þyngri en ekki endilega seinlegri. Þegar skráningarferlin eru, verkferlarnir, eru orðin í lagi á þetta ekki að seinka starfseminni. Aftur á móti gerir þetta það að verkum að allir vita hver tók hvaða ákvörðun og hvar hún var tekin.

Undir lok máls míns ætla ég að fjalla aðeins um aðstoðarmenn ráðherra og ráðningar í Stjórnarráðinu. Í þessu frumvarpi er verið að fjölga aðstoðarmönnum gríðarlega mikið. Hér er þó lagt til að þeim fjölgi ekki fyrr en eftir næstu kosningar, réttara sagt að þá fjölgi þeim enn frekar. Á sama tíma er skorið niður í þinginu eiginlega látlaust og þar af leiðandi verður þingið ósjálfstæðara gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að almennt séð, og ef við horfum til lengri tíma, sé ekkert óeðlilegt og óskynsamlegt það sem hér er verið að segja í sambandi við aðstoðarmenn og að þeir séu ráðnir; og það er mjög mikilvægt og um það fjölluðum við í þingmannaskýrslunni að þeir séu afmarkaðir, þ.e. að vitað sé hverjir þeir eru, hvar þeir starfa og að þeir fari með viðkomandi ráðherra. En þetta er hins vegar meira en að setja svona á blað, þetta þýðir auðvitað líka að á meðan aðstoðarmennirnir starfa, séu hugsanlega ráðnir, geta þeir ekki breyst í stjórnarráðsmenn á meðan þeir starfa í ráðuneytinu og svo séu ráðnir nýir aðstoðarmenn sem síðan hverfa, en aðstoðarmaðurinn sem kom upphaflega með ráðherranum sé orðinn hluti af Stjórnarráðinu. Þá hefur ekkert breyst í hugsuninni þó að menn fylgi algjörlega lagatextanum.

Þetta er flóknara en bara það að setja orð á blað, þetta hefur allan tímann verið spurning um að við náum að breyta hugsun okkar en ekki bara að setja svona hluti á blað. Ég ætla að enda ræðu mína á því að árétta að það sé ákaflega mikilvægt að við náum víðtækari sátt um þær breytingar sem við erum að gera á eins alvarlegum hlutum og þessu hér, þó ekki væri nema til þess eins að það væri líklegra að þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn gerir haldi fram í tímann, að það verði ekki bara breytt strax til baka um leið og nýjar kosningar fara fram. Það yrði afskaplega óskynsamleg leið að fara og mundi þýða að stjórnsýslan mundi búa við ótrúlega óskynsamlegar og óþægilegar aðstæður, að þurfa að vera viðbúinn því að vera skorin upp og skorin niður á fjögurra ára fresti. Stjórnsýslan verður að bera þess merki að hún sé öflug og föst fyrir en það er hins vegar ekkert óeðlilegt, svo ég komi aðeins inn á þessa pólitísku starfsmenn aftur eða aðstoðarmenn, að ráðherra á hverjum tíma geti haft áhrif þar á með sínu fólki en síðan verða þeir þá að hverfa út úr ráðuneytinu.

Það eru nokkrir aðrir hlutir sem var fjallað um í þingmannanefndinni sem hafa ekkert komið fram í þessu frumvarpi þar sem meðal annars forsætisráðuneytinu var falið að bera ábyrgð á að stofna eða setja á laggirnar — hvort það átti ekkert heima í þessu frumvarpi og eigi heima einhvers staðar sér, það er svo sem umræða, en það er að minnsta kosti augljóst að mínu viti að margt af því sem við fjölluðum um í (Forseti hringir.) skýrslu þingmannanefndarinnar til þess að breyta í stjórnsýslunni hefur ekki ratað inn í þetta frumvarp. Og ég held að það þurfi einfaldlega (Forseti hringir.) að vinna það betur og á þessum septemberstubbi sé (Forseti hringir.) óskynsamlegt að gera það.