139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:26]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar sérstaklega að spyrja hv. þingmann um þau álitaefni sem hann kom aðeins inn á í lok ræðu sinnar. Það eru þau atriði sem tilgreind voru í niðurstöðu þingmannanefndarinnar um verklag í Stjórnarráðinu og samspil á milli Alþingis og Stjórnarráðsins, þ.e. löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, í þeirri skýrslu.

Þar fannst mér megintónninn vera sá að nauðsynlegt væri að efla Alþingi og ég hygg að jafnvel áður en þessir blessuðu atburðir urðu árið 2008 hafi verið vaxandi umræða í þinginu um að gæta þyrfti sérstaklega að því, ekki bara þegar litið væri til framkvæmdarvaldsins heldur til Alþingis sjálfs sem stofnunar. Mig langar til að biðja þingmanninn að fara aðeins nánar út í þá þætti í skýrslu þingmannanefndarinnar.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann um fundargerðirnar og hversu lengi hlutirnir eigi að vera lokaðir, verði það lendingin. Þarna er t.d. ákvæði um trúnaðarmálabók sem ég hygg að hafi verið ein af þeim tillögum sem komu úr þingmannanefndinni og við þekkjum úr sveitarstjórnum. Er ekki æskilegt að gefa sér tíma og líta á þessi tvö mál saman; það frumvarp sem við ræðum nú og frumvarp um upplýsingalög, sem ég veit að liggur enn þá í allsherjarnefnd eða er kannski nýbúið að afgreiða þaðan og varðar þetta mál? Við gætum dregið þann lærdóm af því sem ég hygg að okkur sé ætlað að gera, að nauðsynlegt sé gefa þessari lagasetningu rúman tíma áður en hún verður samþykkt eins og lagt er til.