139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[19:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson er í svolitlum vandræðum með breytingartillögur við þessar greinar frumvarpsins eins og ég. Ég á sæti í allsherjarnefnd þar sem við höfum bæði fjallað um stjórnarráðsfrumvarpið og eins frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum og ég verð að játa það að þó að ég hafi setið flesta þá fundi sem um þessi mál hafa snúist skortir mig enn nokkra yfirsýn um það hvernig þetta á að virka í framkvæmd. Ég er ekki viss um að allir aðrir nefndarmenn — einhverjir kunna að hafa gert það — hafi endilega velt því fyrir sér í þessu samhengi, enda held ég að afgreiðsla nefndarinnar á alla vega upplýsingalagafrumvarpinu hafi verið á sínum tíma með þeim skilmálum að málið yrði skoðað betur milli 2. og 3. umr. m.a. um þessa þætti.