139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að við þurfum að fá skýringar á því hversu lengi verður haldið áfram, því að við ræðum mál sem er ljóst að mun þurfa töluverða umræðu. Það eru mjög skiptar skoðanir á því máli. Á meðan bíða mörg önnur mál sem eru ekki síður mikilvæg og er jafnvel mikilvægara að verði kláruð í þinginu en þetta. Því er það svolítið sérstakt að ætla að fara að eyða kvöldinu og nóttinni í að ræða þetta mál þegar dagarnir hverfa frá okkur sem við þurfum að nýta til umræðu samkvæmt starfsáætlun. Því hefði ég haldið að menn ættu að grípa boltann sem mörg okkar hafa kastað á loft í ræðum og athuga hvort ekki sé hægt að klára þetta mál með skynsamlegri hætti en nú stefnir í þannig að við getum farið að tala um önnur sem meira máli skipta.

Það er líka sérkennilegt að vera með þetta mál sem fyrsta mál á þeim dögum sem við eigum eftir þar sem allir vita að það mun taka mestan tíma í allri (Forseti hringir.) umræðunni.