139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:02]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með kollegum mínum sem komið hafa upp og spurt þeirrar einföldu spurningar: Hversu lengi megum við búast við að vera hér í kvöld? Það er ljóst að það mál sem hér er til umræðu verður ekki klárað eða leyst í kvöld. Þess vegna tek ég undir með hv. þingflokksformanni Framsóknarflokksins að nú væri kjörið tækifæri til að leita einhvers konar sátta.

Ég spyr virðulegan forseta að því hvort það geti verið að við þurfum að vera lengur en til tólf, vegna þess að ég þarf að mæta á nefndarfund klukkan átta í fyrramálið. Mér reiknast til að ég þurfi svona klukkutíma til þess að undirbúa mig undir það, fara í sturtu, lesa gögn og eitthvað svoleiðis. Það væri því ágætt að fá að vita það hvað úr hverju hversu lengi þessi þingfundur (Forseti hringir.) á að standa.