139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé verulega góð hugmynd að upplýsa hv. þingmenn um hvenær þingfundi muni ljúka. Maður skyldi ætla að það þyrfti ekkert að rökstyðja það sérstaklega. En ég mundi nú halda að það væri vilji og ætlun hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans að ræða það mál sem þeir hljóta að vera afskaplega stoltir af að flestir geti fylgst með. Við vitum að það eru litlar líkur á því að þessi þingfundur, jafnskemmtilegur, upplýsandi og fræðandi sem hann verður að öllum líkindum, muni hafa samkeppni við annað sjónvarpsefni sem er í kvöld. Ég hvet hv. þingmann og hæstv. forseta til að fá hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, til að rifja upp ræður sem þáverandi hv. þingmaður hélt fyrir nokkrum árum af sams konar tilefni. Ef ég man rétt (Forseti hringir.) gengu þær út á eitthvað svipað og það sem hv. þingmenn ræða núna.