139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:06]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Við samþykktum fyrr í dag að taka þann tíma í þetta mál sem við þyrftum, þennan dag a.m.k., og ræða það fram í kvöldið. Ég er tilbúinn að halda því áfram inn í nóttina. Ég vil líka benda hv. stjórnarandstöðu á að hægt væri að stytta ræðutíma hvers og eins í ræðustól. Hv. þingmenn tala margir hverjir í 40 mínútur. Búið er að heimila tvöfaldan ræðutíma, sem er vel skiljanleg ósk og eitthvað sem við ættum að reyna að mæta þegar kemur að nefndarmönnum í allsherjarnefnd sem hafa sett sig vel inn í þetta mál og hafa mjög margt málefnalegt fram að færa. En að hafa hér framsögu í 40 mínútur fyrir hvern og einn þingmann er nokkuð vel í lagt, sérstaklega ef tekið er mið af því hversu umhugað hv. þingmönnum er um að önnur mál, þýðingarmikil mál, komist á dagskrá. Þá ættu menn að geta látið u.þ.b. 5–10 mínútur duga til að tjá sig á hnitmiðaðan hátt og hugsanlega hnitmiðaðri hátt en þeir hafa gert hingað til. (Gripið fram í.)