139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir þau svör sem hún gaf, þ.e. að hún hygðist halda áfram fundi. Ég verð þó að hryggja hæstv. forseta með því að mér fannst hún ekki svara til hlítar þeirri spurningu sem ég lagði fram, þ.e. hversu lengi forseti hygðist halda áfram fundi. Bent hefur verið á að nefndafundir hefjist kl. 8.30 í fyrramálið. Ég og fleiri þingflokksformenn tökum á móti erlendum gesti í fyrramálið kl. 9.30. Tekið hefur verið tillit til þess að þingmenn og hæstv. ráðherrar þurfa að taka á móti erlendum gestum og geta ekki sinnt þingstörfum. Þar sem okkur er umhugað um að vera viðstödd umræðuna og taka þátt í henni mundi ég gjarnan vilja fá úr því skorið hvort ætlast sé til þess að fundi verði fram haldið langt inn í nóttina.

Varðandi það sem hv. þm. Róbert Marshall (Forseti hringir.) sagði um að menn ættu að stytta ræðutíma sinn trúi ég því hreinlega ekki fyrr en ég tek á því að hv. þingmaður (Forseti hringir.) samræðustjórnmálanna hafi lagt til að málfrelsi verði takmarkað.