139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég missti því miður af þessum umræðum í upphafi fundar eftir hlé. Ég verð að segja að mér þykir miður en þó gott að einu leyti að umræðan er hafin því að ég er komin í þennan sal til að hlýða á hv. varaformann Sjálfstæðisflokksins, Ólöfu Nordal, ræða það mál sem er á dagskrá, sem og hv. formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, en þau eru næst á mælendaskrá. Ég verð að segja alveg eins og er að ég bíð þess með óþreyju að heyra hvað menn hafa um málið að segja efnislega. Það dugar ekki að biðja um tvöföldun á ræðutíma og líta svo á klukkuna þótt hún sé að verða átta, hálfníu að kvöldi og kveina undan því að menn þurfi að fara í bað í fyrramálið og að menn þurfi að fara að taka á móti erlendum gestum. (Gripið fram í.) Við erum í vinnunni, góðir þingmenn, við skulum bara halda því áfram. (Gripið fram í.)