139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

fundarstjórn.

[20:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ummælum hv. formanns allsherjarnefndar, Róberts Marshalls, áðan er rétt að geta þess að í ræðustól þingsins í þessu máli hefur verið nokkurt jafnræði milli fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu. Hv. þingmaður getur farið yfir mælendaskrána til að sannreyna það. Kerskni hans og hnútukast í garð ræðumanna í dag hittir því jafnt fyrir þá sem eru í stjórn og stjórnarandstöðu, þannig að því sé haldið til haga.

Hins vegar er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna það að fáir dagar eru eftir af þessu haustþingi. Mörg mál liggja fyrir og engin forgangsröðun er í gangi, ekki nokkur einasta. Þar ægir öllu saman, mikilvægum málum og málum sem eru síður mikilvæg, málum sem eru tímabundin og þeim sem þarfnast engrar sérstakrar hraðafgreiðslu. Það fæst enginn botn í hvernig við eigum að nota næstu daga til að vinna. (Forseti hringir.) Það kveinkar sér enginn undan vinnu en það þarf að vera eitthvert skipulag á vinnunni.