139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég sé að ákveðnir þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa áhuga á því að ræða þetta mál, ég er ánægð að sjá það, það er nú tilgangurinn með því að hafa málið á dagskrá, geri ég ráð fyrir. Mig langar samt í upphafi, áður en ég sný mér að efni ræðu minnar, að fara aðeins yfir vinnubrögð á þinginu og t.d. þau orð sem hafa fallið núna undanfarnar mínútur um fundarstjórn forseta. Við fjöllum um þetta stjórnarráðsfrumvarp. Ég tek það fram að þetta er ekki í fyrsta skipti sem breytingar á lögum um Stjórnarráðið rata á borð okkar. Sem fyrrverandi fulltrúi í allsherjarnefnd hef ég persónulega tekið þátt í vinnu við breytingar á lögum um Stjórnarráðið, bæði í stjórnarmeirihluta og í minni hluta. Ég verð að frábiðja mér það að menn séu að kveinka sér undan því að hér séu haldnar ræður um þetta mál. Það liggur algjörlega fyrir að ágreiningur er um málið og skoðun okkar í stjórnarandstöðunni er sú að þetta sé ekki eitt af þeim málum sem þurfi að afgreiða á þessu þingi. Það liggur fyrir og við höfum ekki farið í grafgötur með þá skoðun okkar. Eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í fyrirspurnatíma í morgun virðist hún ekki ætla að keyra þetta mál í gegn, orðaði hún það ekki svo í (Gripið fram í.) svari við fyrirspurn, að ég hygg hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar varaformanns Framsóknarflokksins? Það hlýtur þá að vera vilji af hálfu stjórnarmeirihlutans til að fara rækilega yfir málið. Það hlýtur að vera eitthvað á bak við það og felast í því að menn séu tilbúnir til að eiga orðastað við menn í þingsal og einnig að ígrunda málið betur en hér er gert.

Ég hef setið hér í dag og hlustað á umræðurnar. Margt áhugavert hefur komið fram en það sem stendur auðvitað upp úr er að þetta mál er engan veginn tilbúið til afgreiðslu. Það blasir við hverjum manni. Fjölmörg atriði þarf að ræða miklu betur. Þegar talað er um að meiri stefnufestu og vandvirkni þurfi í störfum Stjórnarráðsins, eins og ég hef heyrt á máli þingmanna, get ég nú ekki séð þess stað í frumvarpinu nema síður sé. Ég held að menn séu akkúrat að fara aðra leið, í aðra átt, með framlagningu frumvarpsins og þeirri fyrirætlan að keyra málið í gegn eins og mér hefur heyrst vera vilji til af hálfu stjórnarmeirihlutans.

Ég held að það sé fullreynt með þennan septemberstubb. Nú erum við komin með þrjú tímabil á ári þar sem við erum með kvöld- og næturfundi. Það hefur enginn bragur verið á vinnubrögðum stjórnarmeirihlutans á Alþingi. Við sjáum það aftur og aftur að við erum komin hér með mál í óefni á síðustu stundu. Þegar við skildum í vor hélt ég reyndar að búið væri að ná einhvers konar samkomulagi um það sem ræða ætti á þessum hauststubbi, en samkvæmt dagskrá þingsins virðist eiga að afgreiða öll mál — bara öll mál. Hér er engin forgangsröðun af hálfu ríkisstjórnarinnar. Er þetta brýnt mál? Vissulega er skipulag Stjórnarráðsins talsvert mikilvægt mál, en er það brýnt? Þarf að afgreiða það núna?

Ég hef ekki fengið svör við því með því að lesa skjöl málsins og hlusta á ræður stjórnarliða. Ég hef ekki enn gert mér grein fyrir því af hverju þessi asi er. Af hverju þarf að afgreiða þetta núna? Hvað er það? (Gripið fram í: Algjör …) Þar er það ekki gert í svona miklum ágreiningi eins og augljóst er öllum sem fylgjast með. Það er ekki bara það að við í stjórnarandstöðunni séum á móti frumvarpinu. Fyrst og fremst er ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar. Maður spyr sig nú bara: Er þetta stjórnarfrumvarp?

Hér talar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þvert gegn málinu og er á móti því í ríkisstjórn. Hv. þingmenn vinstri grænna hafa líka gert athugasemdir. Það getur vel verið að hægt sé að leysa úr öllum þessum atriðum. Það getur vel verið að hægt sé að koma fram með frumvarp sem meiri sátt er um en til þess þurfa menn að gefa sér tíma. Ég er ekki enn búin að átta mig á því hvað hastar, eins og ég sagði áðan.

Við höfum breytt lögum um Stjórnarráðið nokkuð ítrekað undanfarin ár. Veruleg breyting á lögum um Stjórnarráðið var gerð árið 2007 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Ég sat í því tilviki í allsherjarnefnd. Alls konar aðrar breytingar var verið að gera á skipulagi þingstarfa á því þingi, sem rötuðu líka inn í allsherjarnefnd. Breytingar voru líka gerðar á þingsköpum. Þegar þær breytingar voru í farvatninu voru mjög skiptar skoðanir um það í þinginu hvernig þeim ætti að vera fyrir komið. Stjórnarandstaðan á þeim tíma var t.d. mjög hugsi yfir þeim breytingum sem gerðar voru á ræðutíma þingmanna. (Gripið fram í: Jahá.) Mjög skiptar skoðanir um það. Það var reyndar einnig svo að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins voru skiptar skoðanir um það hversu langt ætti að ganga í að takmarka ræðutíma. Engu að síður var niðurstaðan sú að hverfa ætti frá þessum löngu ræðum. Ég hygg að hæstv. forsætisráðherra hafi einhvern tímann haldið ræðu sem var tíu og hálfur klukkutími. Ég er viss um að það hefur verið mjög efnisþrungin ræða. Ég veit að það var ástæða til að gera breytingar á þessu. En þetta var ekki eina tilvikið sem slíkar breytingar voru gerðar. Síðan þetta var gert 2007 hefur þessi ríkisstjórn í þrígang lagt til breytingar á Stjórnarráðinu.

Við erum enn að breyta þingsköpum. Við gerðum það síðast í vor og við erum reyndar núna að ræða nánari útfærslur á því hvernig við eigum að haga þingstörfum. Allt er þetta hugsað til þess að það sé meiri agi og festa í þingstörfunum og ég hygg að stjórnarandstaðan á hverjum tíma sé ávallt tilbúin til að leggja sitt af mörkum til þess, virðulegi forseti. En þrátt fyrir takmarkaðan ræðutíma og þrátt fyrir að við höfum verið að þróa þingstörfin áfram, sitjum við samt sem áður uppi með sama vandamálið þegar kemur að skipulagi þingstarfanna við lok þings. Þá á alltaf hreint að klára öll mál. Menn hafa ekki lært af því sem stóð í skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða því sem kom fram í skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég sé að breytingartillögur allsherjarnefndar mæta að vissu leyti athugasemdum þingmannanefndarinnar og ég hygg að allsherjarnefnd hafi tekið tillögur hennar sérstaklega til skoðunar í umfjöllun sinni um þetta frumvarp um Stjórnarráðið. Það finnst mér gott af því að ég held að það sé mjög hyggilegt að fara rækilega yfir það sem þar kom fram og taka það sem til bóta horfir og færa inn í lög um Stjórnarráðið og eins þingið sjálft.

Eitt hefur verið ofarlega í mínum huga allt frá því ég settist á þing vorið 2007, það er óhætt að segja að það hafi verið í dálítið öðru andrúmslofti en nú er. Það er staða Alþingis sjálfs. Mér finnst frumvarpið endurspegla dálítið að við tökumst aldrei almennilega á við það hvernig við viljum haga skipulagi Alþingis. Þegar við ræðum um frumvarp til laga um Stjórnarráðið hefur það auðvitað mikil áhrif líka á það hvernig við hugsum Alþingi. Það hefur margoft komið fram. Við finnum það sjálf, hvar sem við komum, að Alþingi þarf að styrkja. Það verður ekki styrkt öðruvísi en með hjálp þeirra sem þar sitja á hverjum tíma. Ég held að í því tilliti sé líka mikilvægt, þegar við fjöllum um frumvarp af þessu tagi, að horfa á það með þeim gleraugum að við séum ekki bara að hugsa um jafnvægið á milli Stjórnarráðsins og Alþingis heldur líka hlutverk Alþingis þegar kemur t.d. að ákveðnum þáttum sem snúa að Stjórnarráðinu.

Hv. þingmenn, bæði í stjórnarmeirihluta og minni hluta, hafa fjallað um fyrirhugaðan fjölda aðstoðarmanna. Mér finnst eðlilegt að hæstv. ráðherrar geti valið sér aðstoðarmenn. Mér finnst athugunarefni hvernig við högum því þegar ráðherrar koma inn í ráðuneyti, t.d. við stjórnarskipti, og vilja auðvitað koma pólitískum stefnumörkunarmálum sínum í gegn, og að færi sé til að hafa pólitíska hjálp í ráðuneytunum. Strangt til tekið held ég að við verðum að líta til þess að það skiptir máli í ráðuneytum að hæstv. ráðherrar hafi tök á því að styrkja málflutning sinn með pólitískum ráðgjöfum. En að sama skapi skiptir líka máli hvernig þessu er fyrirkomið innan þingsins. Hér tökumst við, stjórnarmeirihluti og minni hluti, á um pólitísk álitamál. Þar skiptir líka máli að menn hafi aðgang að frekari hjálp, ráðgjöf. Ég hygg að við ættum líka að hugsa um strúktúr Alþingis við hliðina á Stjórnarráðinu. Ég held að það skipti máli.

Sums staðar er það nú reyndar þannig að ráðherrar koma með ráðuneytisstjórann með sér þegar þeir setjast í ráðuneyti. Ég hef svo sem ekki gert upp huga minn með það, það togast á í mér tvö viðhorf. Þeir sem eru fylgjandi slíkri stefnu segja að það sé eðlilegt að ráðherrar hafi tök á því að koma inn með sitt fólk, jafnvel til þess að geta á skilvirkari hátt gert ákveðnar pólitískar breytingar sem þeir vilja gera. Á hinn bóginn getur þetta kostað ákveðið los í embættisfærslu viðkomandi ráðuneyta. Þá togast dálítið á tvennt sem við þurfum á að halda; að embættisfærslur ráðuneyta séu tryggar og það sé pólitísk stefnumörkun. Það er það jafnvægi sem við erum alltaf að leita að.

Ég vil nálgast þetta frumvarp þannig að leita að þeim flötum sem þarf að skoða betur í málinu. Ég hygg að málið muni fara aftur til allsherjarnefndar. Mín skoðun er sú að það sé ekkert vit í því að afgreiða frumvarpið núna. Það þarf að fara aftur inn í allsherjarnefnd og liggja milli þinga. Það er eðlilegt að mál af þessum toga fái að þroskast í þinginu. Allsherjarnefnd hefur haft málið til umfjöllunar í sumar. Aðrir þingmenn hafa haft miklu minni tök á því að fara djúpt ofan það. Miklu minni tök. Í öðrum nefndum þingsins hefur frumvarpið ekkert sérstaklega verið rætt.

Ég vil í því efni benda á þær umræður sem voru hér, ég held árið 2007, þegar fjallað var um breytingar á Stjórnarráðinu. Ég vitna þar í hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, en hann taldi eðlilegt að þær breytingar færu til annarra nefnda þingsins. Ég er honum sammála um að heppilegt væri að gera það, ekki síst vegna bakgrunns málsins. Mér finnst ekki óeðlilegt að það sé rætt í öðrum nefndum þingsins líka. Ég held að við eigum að gera miklu meira af því þegar kemur að málum sem snúa að svona strúktúrbreytingum, virðulegi forseti, hjá Stjórnarráðinu eða í þinginu og menn gefi sér nægan tíma til að fara ofan í slík mál. Ég held að það sé það sem við þurfum að læra af þeim skýrslum sem skrifaðar hafa verið, rannsóknarskýrslunni og þingmannaskýrslunni, í kjölfar efnahagshrunsins, sem og annarri reynslu.

Ég las hér undir ræðunum í dag þingskjöl frá 1969 þar sem tekist var á um breytingar á Stjórnarráðinu og var mjög margt fróðlegt í þeim. Kveikjan að þeirri umræðu allri og það sem keyrði hana áfram var vilji þeirra sem lögðu frumvarpið fram, og margir í stjórnarandstöðunni studdu það þegar það komst á lokastig, til þess að breytingar sem gerðar væru á Stjórnarráðinu gerðu það formfastara og sterkara og kæmu í veg fyrir glundroða og geðþóttakenndar ákvarðanir.

Það er nú einmitt það sem mér finnst dálítið einkenni á umræðunum um þetta mál og því sem maður les í nefndarálitinu, greinargerðum og plöggum um málið. Það er eins og tónninn í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra sé í átt að frekari miðstýringu, að það eigi að vera í ríkari mæli ákvörðun hæstv. forsætisráðherra hvernig Stjórnarráðinu sé háttað, hvaða verkefni færist milli ráðuneyta og ráðherra, hversu margir ráðherrar séu í ríkisstjórn og þar fram eftir götunum. Það finnst mér minna mjög á oddvitaræði, á forsætisráðherraræði. Ég hygg að það hafi verið eitt af þeim orðum sem menn tóku sér mjög í munn þegar verið var að gera upp þá atburði sem urðu í kjölfar hrunsins, að það væri nokkuð sem við þyrftum að forðast.

Ég get ekki séð að þetta frumvarp dragi úr því. Það finnst mér vera afskaplega mikill galli. Ég held að það sé alveg einboðið að hv. allsherjarnefnd og raunar allir þingflokkar ræði þetta mál á milli þinga. Mér finnst þetta vera einmitt slíkt mál sem ætti að fara til allra þingflokka á Alþingi en ekki bara inn í þingflokka stjórnarliðsins. Þegar um er að ræða strúktúrbreytingar verða menn að fá að ígrunda þær, slík mál verður að leggja fram til kynningar og þau verða að fá tíma til að þroskast en ekki að þau séu keyrð í gegn á algjörlega óskiljanlegan hátt.

Þá kemur auðvitað upp sú umræða sem kristallaðist hér í morgun og ekki að ástæðulausu, að frumvarpið sé hugsað til höfuðs einstökum ráðherrum og hugsað til að gera einhverjar einstakar breytingum sem verði að gerast og ekki hefur tekist að koma til leiðar á annan hátt. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um, og ég held að það blasi við öllum, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og ráðuneyti hans. Hvað verður um það ráðuneyti verði þessar breytingar að veruleika? Ríkisstjórnin hefur ítrekað reynt að gera breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Við þekkjum það, í umræðum um atvinnuvegaráðuneytið, að það er að minnsta kosti skoðun annars stjórnarflokksins að þar þurfi að gera breytingar.

Síðan er það hitt sem skiptir auðvitað líka máli þegar kemur að þessu frumvarpi. Það er hver er raunverulegur meiri hluti fyrir því. Hverjir eru það í stjórnarliðinu sem styðja ekki málið? Þrír hv. þingmenn skrifa undir meirihlutaálitið með fyrirvara. Tveir af þeim eru stjórnarliðar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Þær gera grein fyrir fyrirvörum sínum. Það segir manni að málið gæti verið miklu betur þroskað. Svo þekkjum við ekki almennilega hver stuðningur við málið í heild sinni er innan ríkisstjórnarflokkanna.

Hér eru ákveðin atriði sem mig langar að gera sérstaklega að umræðuefni. Í fyrsta lagi eru það breytingartillögur frá allsherjarnefnd sem felast m.a. í því að aðstoðarmönnum verði fjölgað. Ég hygg að þegar kemur að slíkum breytingum sem kalla á aukin fjárútlát ríkissjóðs, verðum við að fá það fram að gerðar séu breytingar á kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins. Við vitum ekki hver heildarkostnaður við frumvarpið er, en breytingartillögurnar frá meiri hlutanum fela í sér veruleg útgjöld. Ekki hefur verið gerð sérstök grein fyrir þeim útgjöldum. Það er eitthvað sem við þurfum að gera og þurfum að breyta.

Á þingskjali 1858 eru breytingartillögur frá meiri hluta allsherjarnefndar. Þar er lögð til breyting á 4. gr. frumvarpsins en 2. mgr. hennar hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvert ráðuneyti skal óskipt lagt til eins og sama ráðherra. Heimilt er að fela sama ráðherra að fara með fleiri en eitt ráðuneyti á hverjum tíma.“

Í breytingartillögunum er 1. málsliður 2. mgr. 4. gr. felldur út, þ.e. setningin: „Hvert ráðuneyti skal óskipt lagt til eins og sama ráðherra.“ Á sama tíma er lagt til að aðstoðarmönnum sé fjölgað. Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar, þar sem talað er um 15. gr. stjórnarskrárinnar o.s.frv., segir um þetta, með leyfi forseta:

„Ákvæði 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er á skjön við valdheimildir stjórnvalda skv. 15. gr. stjórnarskrárinnar enda takmarkar það í reynd valdheimildir ríkisstjórnar til að ákveða fjölda ráðherra. Að mati meiri hlutans er brýnt að vald og ábyrgð fari saman að þessu leyti.“

Ég mundi gjarnan vilja fá nánari skýringar frá flutningsmönnum breytingartillögunnar á því hver sé nákvæmlega hugsunin með þessari breytingu. Ég vonast til þess að formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Róbert Marshall, sé að fylgjast með, ég sé hann ekki hér í hliðarherbergi, og geti svarað því, hvort sem hann gerir það núna í andsvari eða í lokaræðu. Hvað vakir nákvæmlega fyrir meiri hlutanum í allsherjarnefnd með þessu? Ég er að velta fyrir mér hvort það geti verið að þarna sé verið að opna heimildir. Í síðari málslið 2. mgr. 4. gr. segir nefnilega:

„Heimilt er að fela sama ráðherra að fara með fleiri en eitt ráðuneyti á hverjum tíma.“

Þegar maður skoðar þetta saman, getur þá verið, virðulegi forseti, að þarna sé verið að velta því upp að fleiri en einn ráðherra geti verið í hverju ráðuneyti? Við þekkjum það svo sem annars staðar frá og dæmi eru um það erlendis að það séu fleiri en einn ráðherra í ráðuneyti og þeir hafa þá einstaka málaflokka á sinni könnu. Reyndar höfum við verið að sameina ráðuneyti og stækka þau mjög. Til dæmis er hæstv. velferðarráðherra Guðbjartur Hannesson í velferðarráðuneytinu með gríðarlega umfangsmikinn málaflokk og í raun og veru það sem tveir ráðherrar sinntu áður. Ég varpa þessu fram í umræðunni. Ég óska þess að þetta sé skoðað sérstaklega í hv. allsherjarnefnd milli 2. og 3. umr. Ég hygg að þetta sé eitt af þeim atriðum sem koma fram í frumvarpinu og í hugmyndum nefndarinnar sem þarfnast miklu meiri skoðunar en við höfum tök á, á þessum septemberstubbi. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Við þurfum miklu rýmri tíma til þess að fara í þetta og ígrunda.

Síðan eru aðrar breytingartillögur. Ég hef einbeitt mér að þeim af því að þær hafa væntanlega verið lagðar fram til að greiða fyrir málinu af hálfu meiri hlutans og til að skýra málið og gera það betra. Það er augljóst að við þurfum miklu meiri tíma til að átta okkur á hvað er hér á ferðinni.

Hér er lögð til ný málsgrein, virðulegi forseti, við 6. gr. frumvarpsins. Mig langar til að lesa hana upp, með leyfi forseta:

„Á ríkisstjórnarfundum skal skýra frá fundum þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma sameiginlega fram gagnvart aðilum úr stjórnkerfinu eða utan þess og þegar þeim sem fulltrúum ríkisstjórnarinnar eru veittar mikilvægar upplýsingar eða kynnt málefni sem þurfa að koma til úrlausnar innan stjórnsýslunnar.“

Ég hef verið að reyna að átta mig á því hvað hér er verið að fara. Ég get alveg skilið að það þurfi rík skoðanaskipti á ríkisstjórnarfundum. Ég hef heldur gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að menn skiptist einmitt á skoðunum á ríkisstjórnarfundum og reyni að komast að niðurstöðum um einstök mál og geri jafnvel líka grein fyrir því sem menn hafa verið að starfa. En hver er nákvæmlega tilgangurinn með þessu ákvæði? Hvað eru menn að hugsa sérstaklega? Ég fann ekki nógu skýr dæmi um það í nefndarálitinu frá meiri hlutanum. Ég held að það sé líka mjög óráðlegt að ganga of langt í þessu og ríkisstjórnarfundirnir verði ekki bara einhver tilkynningarskylda um fundi sem hæstv. ráðherrar hafi verið að sitja, heldur að það komi eitthvað út úr þeim sem skipti máli fyrir umræðuna og hafi einhverja þýðingu. Þetta held ég að kalli á margar spurningar og það væri fróðlegt, virðulegi forseti, að fá nánari útskýringar á því.

Síðan er hér líka þessi blessaða grein sem ég hygg að hafi verið sett inn eftir þá makalausu uppákomu sem varð þegar ekki var hægt að afgreiða frumvarpið út úr hv. allsherjarnefnd af því að við afgreiðslu málsins kom skyndilega í ljós gríðarlegur ágreiningur milli einstakra hv. stjórnarþingmanna og hv. þm. Þráinn Bertelsson lagðist gegn afgreiðslu málsins. Það er sú breyting að fundir ríkisstjórnarinnar skuli vera hljóðritaðir og afritið geymt, o.s.frv. Ég sé hins vegar á breytingartillögum frá Hreyfingunni að þar vilja menn ganga miklu lengra, virðulegi forseti, í því sem á að vera í fundargerðum ríkisstjórnar. Greina þarf nákvæmlega frá því hver ráði umræðunni í ríkisstjórninni, hver það er við ríkisstjórnarborðið sem beitir fortölum og talar fyrir málum. Það er mjög afgerandi tillaga.

Ég hlustaði líka á umræðurnar á fimmtudaginn var. Ég hygg að ég hafi fylgst með þessum umræðum frá upphafi. Ég heyrði á máli hv. þm. Þórs Saaris að skoðun Hreyfingarinnar er sú að það sé algjört grundvallaratriði að þær breytingar sem þau hafa lagt fram verði samþykktar til þess að stuðningur þeirra við málið verði tryggður.

Ég hygg nú að hér sé um mjög byltingarkenndar breytingartillögur að ræða og að þær þurfi miklu nánari skoðun. Ég get með engu móti fallist á þær breytingartillögur eins og þær liggja fyrir. En allt er þetta til merkis um að málið er vanbúið, það er ekki tilbúið. Það á ekki að afgreiða þetta mál núna. Það þarf að gefa því miklu lengri tíma.

Mig langar að gera fleiri atriði í þessu máli að umtalsefni, (Gripið fram í: … af nógu að taka.) Já, af nógu er að taka, fyrir utan breytingartillögurnar frá hv. þm. Þór Saari og öðrum í Hreyfingunni. Eitt er samspilið á milli upplýsingafrumvarpsins og þessa frumvarps hér. Ég sit ekki lengur í allsherjarnefnd og mig langar hreinlega að spyrja um þetta því mér finnst forvitnilegt hvernig þetta gengur saman. Ég sé að hér er fulltrúi í hv. allsherjarnefnd viðstaddur. Hafa þessi tvö frumvörp verið unnið saman? Menn eru ekki sammála um hvað eigi saman og hvað ekki. Það hefur ekki farið á milli mála í umræðunum í dag að skiptar skoðanir eru um hvort þetta frumvarp samræmist að öllu leyti upplýsingafrumvarpinu. Ég held einmitt að þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar lagði fram séu gerðar vegna þess að hann hafi áhyggjur af því að þar skarist eitthvað við upplýsingalöggjöfina. (MÁ: Þetta er allt ljóst og klárt.) Ég er afskaplega glöð að vita að þetta er allt klárt í höfðinu á hv. þingmanni Merði Árnasyni. Það er nú ekki svo hjá þeim sem sitja ekki í nefndinni en þurfa engu að síður að hafa góðan skilning á því sem hér er á ferðinni, það er náttúrlega grundvallaratriði.

Eitt af því sem kemur fram í breytingartillögunum — enn og aftur finnst mér mjög mikið atriði að staldra við breytingartillögurnar og gera sér grein fyrir hvaða áhrif þær hafa á málið í heild sinni. Eitt atriði hér finnst mér eiga rætur að rekja í tillögur þingmannanefndarinnar. Ég hef ekki haft tök á því í dag að lesa saman breytingartillögurnar og niðurstöður þingmannanefndarinnar. Mér heyrist samt að tónninn í hv. allsherjarnefnd hafi verið að líta til hennar þegar breytingartillögurnar voru smíðaðar. Lögð er til breyting á 7. gr. þar sem gert er ráð fyrir svokallaðri trúnaðarmálabók. Þetta er nokkuð sem er tekið úr sveitarstjórnum og hefur tíðkast þar og var nokkuð mikið til umræðu hér þegar skýrsla þingmannanefndarinnar var rædd.

Ég held að þetta geti verið mjög eðlilegt. Ég held að það sé ágætt að hafa tök á því að vera með ákveðna hluti lokaða í trúnaðarmálabók. Það þarf auðvitað að spyrja sig að því hvernig eigi síðan að fara með það. Á alltaf að ríkja trúnaður um sum atriði eða hversu langur tími á að vera á slíkum hlutum? Að því leyti er ekki alveg hægt að bera þetta saman við það sem gerist í sveitarstjórnum því þar eru oft mjög persónuleg mál á ferðinni, mjög persónuleg fjölskyldumál sem varðar félagsþjónustu (Gripið fram í.) sveitarfélaga o.s.frv.

Það er því ýmislegt í frumvarpinu sem mér finnst vera til bóta og ég hef rakið í ræðu minni, ýmislegt sem er hugsað til þess að lagfæra o.s.frv. Það er enda alveg klárt af lestri minnihlutaálits sjálfstæðismanna að minnsta kosti, að menn hafa tilgreint ýmislegt sem er til bóta fallið. En ágreiningur er um stór atriði. Fyrir utan þetta stóra atriði í 2. gr. sem er náttúrlega grundvallaratriði og grundvallarálitamál þá eru það breytingarnar sem lagðar eru til á 4. gr. og ég þarf að fá betri skýringar á. Ég óska þess að þær skýringar fáist, hvort verið sé að opna á það að fleiri en einn ráðherra gætu verið í ráðuneyti.

Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess, virðulegi forseti, hvort sú breyting sé til bóta eða ekki, ég hef ekki íhugað það nógu vel. Það þarf að gefa sér tíma til að gera það en eins og þetta er sett upp hljómar það eins og verið sé að leggja til að í stórum ráðuneytum sé hægt að hafa marga aðstoðarmenn. Nú er hér fulltrúi í allsherjarnefnd og hæstv. forsætisráðherra einnig og því spyr ég: Býr slík hugsun að baki? Við þekkjum það vel annars staðar frá að það hefur verið gert.

Allar þær breytingar sem þarna eru kynntar og þær breytingar sem hafa verið gerðar á Stjórnarráðinu fram til þessa finnst mér við þurfa að hafa miklu rýmri tíma til að fjalla um en við höfum núna, miklu rýmri tíma. [Kliður í þingsal.] Það er mikið fjör hér í þingsalnum svona síðla kvölds. Við þurfum að veita okkur þann tíma. Það er engum okkar til góðs, það gildir alveg eins um okkur í stjórnarandstöðunni og þá sem eru í ríkisstjórninni, það er engum til góðs að frumvarp af þessu tagi sé afgreitt í snarhasti og fljótheitum. Ég tala nú ekki um að menn fái tækifæri til að fara rækilega yfir svo miklar breytingartillögur frá meiri hluta allsherjarnefndar. Ég skil nú ekki alveg hvernig það á að geta gerst á þeim skamma tíma sem eftir er af þinginu. Ég skil ekki hvernig það á að geta gerst að málið fari aftur til allsherjarnefndar og það eigi einhver alvöruumræða sér stað á þeim stutta tíma sem eftir er af þingi. Við vitum að jafnvel þótt við værum hér allar nætur þá á þinginu að ljúka á fimmtudaginn. Það eru stór mál enn þá óafgreidd. Af þeim hlýtur gjaldeyrishaftamálið að vera mikið grundvallarmál.

Minn skilningur hefur verið sá að að það hafi verið nokkuð góð samvinna í allsherjarnefnd á þessu þingi og menn hafi reynt að ræða sig niður á niðurstöðu og bæta einstök mál. Allir flokkar hafa viljað leggja þar sitt til. Ég hygg að það sé (Gripið fram í.) mjög brýnt að gefinn verði miklu rýmri tími til að fjalla um þetta mál.

Ég ítreka þá tillögu sem ég varpaði fram í umræðunni, hvort ekki sé eðlilegt að frumvörp af þessum toga sem snúa að strúktúrbreytingum fái meiri umfjöllun hjá þingflokkum stjórnarandstöðuflokkanna. Það var gert varðandi þingsköpin. Um þær breytingar voru verulegar umræður í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst það sama eigi að gilda þegar kemur að Stjórnarráðinu af því þetta er að vissu leyti samhangandi hjá okkur. Ég held að við ættum að gera það og leyfa þingflokkunum innan sinna raða að hafa rýmri tíma til að fjalla um þessa þætti.

Í dag hefur náttúrlega verið mikið talað um framsal frá þinginu til framkvæmdarvaldsins. Mér finnst vera gerð mjög vel grein fyrir því í nefndaráliti 1. minni hluta. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að tiltaka það, en ef meiningin er að auka stefnufestu hygg ég að sú stefnufesta sem felst í því að þurfa að leita til þingsins um breytingar á Stjórnarráðinu skipti miklu máli. Ég hef ekki orðið vör við að það hafi verið mikið vandamál. Við höfum breytt Stjórnarráðinu. Við höfum sameinað ráðuneyti. Við höfum farið með þetta til þingsins og menn hafa haft á því ólíkar skoðanir. Síðan hefur fengist ákveðin niðurstaða. Þeir sem hafa borið þau mál fram hafa yfirleitt getað klárað þau sjálfir. Það hefur yfirleitt verið þannig.

Ég vonast til að menn gefi sér meiri tíma til að fara yfir þessar breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Mig langar líka til að fá fram hvort reynslan af þeim breytingum sem hafa verið gerðar á Stjórnarráðinu hafi verið rædd í hv. allsherjarnefnd, bæði breytingunum 2007 og nú síðast. Ég nefni þegar dóms- og mannréttindaráðuneytinu var breytt, þegar breytingar voru gerðar á sjávarútvegsráðuneytinu og það sameinað landbúnaðarráðuneytinu og eins breytingarnar sem gerðar voru núna á velferðarráðuneytinu. Ég vil sérstaklega tiltaka velferðarráðuneytið af því að þar er um að ræða svo gígantísk útgjöld ríkissjóðs. Ef við tökum saman velferðar- og menntamálaráðuneytið er þar um að ræða verulegan hluta útgjalda ríkissjóðs. Ég held að þegar svona örar breytingar verða á Stjórnarráðinu sé mikilvægt að menn fari yfir, þegar frekari breytingar eru fyrirhugaðar, hver reynslan hefur verið af fyrri breytingum. (BJJ: Hvernig er með mannaráðningarnar?) Fyrir utan það, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, verklag ríkisstjórnarinnar. Það er allt önnur saga.

Ég vil í þessari ræðu fókusera á þetta frumvarp hér og breytingartillögurnar, hvort þær séu til bóta, hversu mikið þær hafa verið ræddar og hvort ekki sé ástæða til að fara nánar ofan í einstaka þætti, þau atriði sem ég tiltók sérstaklega og mér þykja nokkuð forvitnileg. Það er nú ástæðan fyrir því að ég klifa á þessu. Mér þykir dálítið forvitnilegt að vita hverju menn ætla sér að ná fram með breytingunni á 4. gr. Ég býst við því að virðulegir fulltrúar í allsherjarnefnd geti svarað því, að minnsta kosti farið rækilega yfir það á milli 2. og 3. umr.

Eitt annað ákvæði langar mig til að gera að umtalsefni, ég hef ekki tíma til að fara ofan í fleiri. Mig langaði að fá nánari útskýringar á fleiri ákvæðum en get það ekki tímans vegna. Ég býst við því að maður hafi tækifæri til að koma þeim athugasemdum á framfæri. Það er 12. gr. Í 3. mgr. hennar er gert ráð fyrir að ráðherra sé heimilt að láta í té óbindandi álit sem þýðingu geti haft til leiðbeiningar fyrir stjórnarframkvæmd á málefnasviði hans enda leiði ekki af lögum eðli máls að honum sé það óheimilt.

Ég hef lesið skýringar með þessu ákvæði og reynt að fá betri útskýringu á því. Ég hef ekki alveg áttað mig á því hver hugsunin er með þessu. Hversu langt á að ganga í að láta í té óbindandi álit og hvernig á að fara með þetta? Hver er hugsunin með þessu, á hvaða vandamáli er þarna verið að taka og hvað halda menn að komi út úr þessu? Mér finnst þetta dálítið óskýrt. Ég skil ekki „óbindandi álit“, hvaða stöðu hefur það í rauninni? Mér finnst þetta óskýrt og ég held að skoða þurfi þetta betur.

Það eru fleiri dæmi hér um dálítið óskýra þætti sem ekki hafa verið skýrðir nákvæmlega í nefndarálitum og þyrfti að skýra betur. Mér finnst þetta vera dæmi um það.

Annars staðar í frumvarpinu er gert ráð fyrir skráningu á samskiptum í ráðuneytum. Ég hef ekki fengið skilgreiningu á hvað í því felst. Nú er ég ekki endilega að leggja til að settur verði skilgreiningakafli í frumvarpið, virðulegi forseti. Mér hefur nú fundist sumar þær skilgreiningar sem hafa komið upp í öðrum frumvörpum vera alveg óskiljanlegar og nýyrði þar ekki mjög lýsandi. Ég er ekki að kalla eftir því. Þegar um svona er að ræða er hins vegar nauðsynlegt að einhver nánari skýring sé gefin, bæði á þessu óbindandi áliti og þessu samskiptaformi, ég man ekki í svipinn í hvaða grein frumvarpsins það er. Ég held að það kalli á skilgreiningu þótt það sé ekki í skilgreiningakafla, það sé að minnsta kosti skýrt við hvað er átt.

Það má ekki vera þannig að lögin um Stjórnarráðið séu ruglingsleg, eins og þetta með samskipti milli ráðherra og breytingartillöguna um samskipti og tilkynningarskyldu á fundum. Tilgangurinn verður að vera ljós og hvert er verið að fara. Hverju þarf að gera grein fyrir, hvaða samtölum og fundum sem ráðherrar hafa átt hér og þar út um bæ þarf að gera grein fyrir? Það er mjög brýnt að maður skilji hvað er verið að takast á við og hver sé tilgangurinn með því. Til hvers er verið að gera þetta? Þarna eru tiltekin ákvæði sem ég þarf að fá miklu betri (Forseti hringir.) skýringar á. Ég vonast til þess að þær skýringar komi fram þegar líða tekur á umræðuna.