139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hún kom inn á eitt atriði sem stakk mig dálítið. Hún sagði að þetta mál hefði átt að fara til allra þingflokka. Ég tel reyndar og vil spyrja hv. þingmann: Ættu ekki öll meiri háttar mál sem hugsanlega geta lent í ágreiningi að fara til þingflokka? Hefur ekki einmitt orðið misbrestur á því að ríkisstjórnin hafi leitað samráðs við þingflokka, hvað þá atvinnulífið, og þess vegna stöndum við stöðugt í deilum (Gripið fram í: Já.) langt fram á nótt?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann: Getur ekki verið að það séu ákveðnir einræðistilburðir í þessu frumvarpi? (Gripið fram í: Jú.) (Gripið fram í: Nei.) Þar segir að einstakir ráðherrar séu sjálfstæðir og beri ábyrgð á gjörðum sínum, en forsætisráðherra geti hvenær sem er rekið þá. Þar með væri forsætisráðherra farinn að stjórna í gegnum alla ráðherrana. (Gripið fram í.)