139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:21]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég þakka forseta fyrir þá fundarstjórn að ég skuli geta verið fram eftir á kvöldin og notið þeirrar glæsilegu ræðumennsku og rökfimi sem hér fer fram. Einkum fær maður lífsfyllingu af því að heyra fulltrúa stjórnarandstöðunnar kvarta yfir eigin málþófi. Þeir byrjuðu á að vera í málþófi við Árósafrumvörpin. Síðan voru þeir í málþófi við gjaldeyrishöftin. Þeir tóku aðeins millispil og voru í málþófi við vatnalögin sem þeir voru þó sammála. Og nú eru þeir í málþófi við Stjórnarráðið. Það er nánast ekkert mál sem verið hefur til einhverrar umræðu á þinginu sem stjórnarandstæðingar hafa ekki þæft. Svo koma þeir á kvöldin og kvarta yfir því að þeir skuli sjálfir þæfa mál. En þessi kvöldfundur var samþykktur með sérstöku tilliti til málþófs þeirra þannig að þeir eiga heiður skilinn fyrir að hafa búið hann til með meiri hluta í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu á Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í.)