139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég held að það sé heilmikið til í þessari kenningu hv. þingmanns. Það er mjög margt við þetta fyrirkomulag sem hentar miklu betur við þær aðstæður þar sem einn flokkur fer með völd en í samsteypustjórn. Þetta er reyndar rakið að nokkru leyti í sögu þessara mála. Það er sögulegt yfirlit í bæklingnum sem fylgir frumvarpinu, en þó sérstaklega kemur þetta fram í umræðunum sem ég vitnaði til hérna áðan frá 1969 um Stjórnarráðið. Þá voru menn að velta fyrir sér aðstæðum hér þar sem yfirleitt væru samsteypustjórnir og að lögin þyrftu að taka mið af því. Ætli hæstv. forsætisráðherra sér að koma á tveggja flokka (Forseti hringir.) kerfi á Íslandi þarf a.m.k. að byrja á því að reyna að ná því í gegn (Forseti hringir.) áður (Forseti hringir.) en farið er að laga kerfið að slíku.