139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri gott að skoða útleggingar starfshópsins sem þetta frumvarp byggir á. Ég skoðaði þær síðast þegar var verið að breyta Stjórnarráðinu, þá var helsta útleggingin sú hjá núverandi hæstv. forsætisráðherra að það þyrfti að sameina ráðuneytin og var jafnvel vísað í rannsóknarskýrsluna, að vísu finnst ekkert um það þar, mér vitandi, vegna þess að sameina þyrfti litlu ráðuneytin. Þá voru tekin tvö stærstu ráðuneytin og þau sameinuð, en litlu ráðuneytin eru enn þá í gangi. Mér finnst sérstakt hvernig að þessari vinnu hefur verið staðið. Aðilar sem eru nátengdir hæstv. forsætisráðherra hafa verið að vinna í þessum starfshópi. Síðan kemur þessi niðurstaða. Á það hefur verið bent af mörgum að þetta eigi frekar við, eins og hv. þingmaður nefndi, við allt aðrar aðstæður. Eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) benti hvað eftir annað á er svolítið sérstakt í ljósi þess að menn eru sammála um að auka vald og virðingu þingsins og vægi að þeir fari þá í þveröfuga átt í þessu frumvarpi.