139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:24]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að það er óskiljanlegt að fá ekki fram hvað það er sem veldur því að afgreiða þarf þetta mál á þeim örfáu dögum sem eftir lifir þings. Það er náttúrlega undarlegt að ekki sé hægt að fá slíkar skýringar fram af hálfu stjórnarliða.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirra orða hans að eðlilegt sé að líta á þetta allt í samhengi — hann nefndi stjórnarskipunarlög og slíkar breytingar — hvort hv. þingmaður telji ekki rétt að leggja þetta mál í heild sinni til hliðar núna. Við höfum verið að gera breytingar á þingsköpum. Menn eru að gera þetta allt í pörtum og bútasaumi. Staða Alþingis í raun og veru gagnvart Stjórnarráðinu er enn óljós. Mér sýnist þetta frumvarp vera til þess fallið að skekkja enn frekar þá mynd gagnvart Alþingi. Heldur ekki hv. þingmaður að rétt sé að málið fari bara aftur til allsherjarnefndar, liggi þar milli þinga og næsta vetur tryggi þingmenn sér góðan tíma innan þingflokka til að ræða þessar skipulagsbreytingar (Forseti hringir.) heldur en einskorða þær við eina tiltekna þingnefnd eins og gert hefur verið?