139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvernig honum finnist þær tillögur sem fram koma í þessu frumvarpi um aukin völd hæstv. forsætisráðherra, hver sem það er í hverju tilviki, og hvernig þær rími við umræðurnar hér í fyrrasumar um niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þær breytingar sem þingmannanefndin taldi nauðsynlegt að gera á Stjórnarráðinu, ferlum og því verklagi sem hafði verið viðhaft þar. Hvernig finnst hv. þingmanni það ríma saman? Hvaða skoðanir hefur hv. þingmaður enn fremur á þeim ákvæðum frumvarpsins sem gera ráð fyrir meðferð fundargerða og slíkra þátta? Af hverju er ekki í meðförum nefndarinnar unnið betur saman að þeim breytingum sem eru fyrirhugaðar á upplýsingalögum og síðan þeim breytingum sem hér eru boðaðar á lögum um Stjórnarráðið?