139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hélt mjög hér á lofti þeirri kenningu að tilgangurinn með þessu frumvarpi væri að koma Jóni Bjarnasyni sjávarútvegsráðherra úr ríkisstjórn og það væri fyrsta verkið sem ég mundi gera þegar þetta frumvarp yrði samþykkt. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur þá á því að ég hef ekki beitt því ákvæði í lögum sem kveður á um að sameina megi ráðuneyti með forsetaúrskurði og hef ekki gert í rúmlega tvö og hálft ár ef það er mér svona mikið kappsmál?

Í annan stað af því hv. þingmanni er annt um stjórnarskrána: Gerir hann sér grein fyrir því hvað er verið að gera með 2. gr. sem hann vill brott? Það er verið að færa lagaákvæði um stjórnskipan nær stjórnarskránni sjálfri, en þar segir að forseti ákveði tölur ráðherra og skipti með þeim störfum. Er hv. þingmaður virkilega á móti því að ákvæði sé fært nær því sem stjórnarskráin kveður á um?

Síðan vildi ég spyrja hv. nefndarmenn í allsherjarnefnd þegar þeir fá tækifæri til: Er það svo að ég hafi verið að fjarstýra nefndinni (Forseti hringir.) og komið í gegn þeim breytingartillögum (Forseti hringir.) sem við erum að ræða um? Ég kom ekki nálægt þessu, hv. þingmaður.