139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þessar spurningar hæstv. forsætisráðherra hafa komið fram áður í umræðunni í dag. (Gripið fram í: Nú!) Þeim hefur held ég að miklu leyti verið svarað.

Fyrst varðandi þá staðhæfingu hæstv. ráðherra að hún hefði getað með forsetaúrskurði skipt Jóni Bjarnasyni út ef svo má segja. Jú, jú, samkvæmt laganna hljóðan hefði það verið hægt. Hæstv. forsætisráðherra hefði getað farið í pönnukökur á Bessastaði í eitt af þessum huggulegu boðum sem forseti lýðveldisins lýsti í dag (Gripið fram í.) og beðið forsetann um að gefa út slíkan úrskurð. En þrátt fyrir að lögin segi að hæstv. forsætisráðherrann hafi getað þetta tel ég að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki lagt í að beita slíku vopni af pólitískum ástæðum, einfaldlega vegna þess að það hefði sett stjórnarsamstarfið í uppnám og þess vegna vilji hæstv. forsætisráðherra fá þægilegri tæki til að ná sama markmiði.