139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert annað en móðgun við heilbrigða skynsemi að halda því fram að þetta mál hafi ekkert með heimilin í landinu að gera og það hvernig við háttum stjórnsýslu okkur hafi ekki áhrif á líf einstaklinga sem vinna sína vinnu frá degi til dags í landinu okkar. Auðvitað tökum við tillit til vinnu fjölda fólks, bæði í rannsóknarnefnd Alþingis og þingmannanefndinni og svo fólks innan stjórnsýslunnar sem hefur lagt fram ítarlegar skýrslur. Með því að lesa í gegnum nefndarálit meiri hluta allsherjarnefndar má finna í hverri grein hvernig eitthvert atriði úr þeirri vinnu hefur ratað inn í þetta frumvarp. Það hentar ekki málflutningi hv. þingmanna Framsóknarflokksins að rekja hvernig það passar eða hvernig megi með málefnalegum hætti mæta þeim tillögum og ábendingum sem Framsóknarflokkurinn kynni að búa yfir, eins og t.d. þeim sem komu frá nefnd á vegum Framsóknarflokksins sem skilaði af sér árið 2007 og áréttaði að ríkisstjórnin ætti að skipta sjálf með sér verkum en ekki löggjafinn, að samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta ætti ekki að vera bundin í lögum þar sem áréttuð var heimild til að skipa ráðherra án ráðuneytis og að pólitísk forusta í Stjórnarráðinu gagnvart embættismannakerfinu yrði stóraukin. Þetta eru allt atriði sem verið er að taka á í þessu frumvarpi og hv. þingmanni, sem er nýr í Framsóknarflokknum, virðist ekki vera kunnug um.

Nú kann einhver að halda því fram að þetta sé gömul stefna vegna þess að hún var skrifuð 2007 en hún var áréttuð af öðrum þingmanni Framsóknarflokksins fyrir ári síðan, 16. júní. Enn annar þingmaður Framsóknarflokksins, reyndar ekki sá sem talaði hér áðan heldur sú sem situr í hv. allsherjarnefnd, hefur svo allt aðra skoðun á þessu máli. Spurningin er því: (Forseti hringir.) Við hvern vill hv. þingmaður að verði haft samráð? Við hvern á að hafa samráð í þessu máli af hálfu Framsóknarflokksins? (Forseti hringir.)