139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það verður hver þingmaður að svara fyrir það hvernig hann mun greiða atkvæði í þessu máli komi það til atkvæðagreiðslu. Það hefur verið töluverð umræða um það hvort málþóf sé í gangi hér og hversu lengi þingmenn ætli að ræða þetta mál hjá hv. stjórnarliðum meðal annars. (Gripið fram í: Nú!) Ég held að í ljósi fjölda athugasemda sem komið hafa fram við þetta mál sé smámál að ræða það langt fram eftir kvöldi. Það verður fyrst alvarlegt ef málið verður samþykkt á Alþingi og verður að lögum. Ég vonast innilega til að þetta mál komist aldrei svo langt og að menn sjái að sér áður en svo verður og setji það í skynsamlegri farveg, eins og ég kom að í ræðu minni áðan.