139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur ljóst fyrir eins og hv. þingmaður kom inn á að hryggjarstykkið í þessu frumvarpi er sú breyting að færa aukið vald til forsætisráðherra frá Alþingi. Það liggur líka ljóst fyrir að allar leikreglur eða þau grundvallarsjónarmið sem ætti að hafa að leiðarljósi við breytingar á Stjórnarráðinu hafa greinilega breyst hjá í það minnsta öðrum stjórnarflokknum frá 2007.

Skoðun hæstv. forsætisráðherra kemur skýrt fram. Hún vill breyta þessu. Ég get ekki svarað fyrir af hverju þessi breyting hefur verið gerð en ég hygg að í þessum málum sem og fleirum, ég nefni Evrópusambandsmálin, sé mjög nærtækt að menn horfi í auknum mæli til þess vanda sem nú blasir við í Noregi. Þar voru kosningar. Hvað var til umræðu í kosningunum þar? Það er að verða svo lítill munur á Arbeitspartiet og SV í Noregi að SV var nær að þurrkast út og formaður flokksins sagði af sér í kvöld.