139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég spurði hv. þingmann var einfaldlega sú að ég er að verða hálfráðþrota um það hvernig maður geti leitað skýringa á þessum skyndilegu breytingum á afstöðu annars stjórnarflokksins. Það liggur fyrir að það eru ekki nema fjögur ár síðan flokkurinn hafði mjög skýra stefnu. Hann vildi alls ekki draga úr valdi Alþingis og jafnvel þó að á árinu 2007 hafi bara verið stigið hænuskref miðað við það sem verið er að gera núna var það engu að síður tilefni til mjög harðvítugra umræðna og stórra orða sem féllu í þeirri umræðu. Ég hef verið að rukka ráðherra Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um skýringum á þessu. Því hefur verið svarað með þögninni. Ég held að mikilvægt sé að leita alls staðar upplýsinga um þetta mál vegna þess að þetta eru stórtíðindi. Það hlýtur að vera eitthvað í fortíðinni. Það hlýtur að vera reynsla hv. þingmanna í stjórnarsamstarfi með Samfylkingunni og í stjórnarsamstarfinu almennt sem gerir það að verkum að þeir hafa talið nauðsynlegt að skipta um skoðun í þessu máli eins og reyndar mörgum öðrum.