139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefur verið rætt um brag og þingbrag. Ég tel mikilvægt, til að liðka fyrir umræðunni, að við fáum sjónarmið fleiri þingmanna Vinstri grænna en núverandi sitjandi forseta, að við fáum viðhorf þingmanna Vinstri grænna í þessu máli.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom hingað upp á sínum tíma til að gera grein fyrir fyrirvara sem síðan enginn var. Aðrir þingmenn Vinstri grænna hafa ekki verið á mælendaskrá í þessu máli. Vissulega berum við ákveðna virðingu fyrir skylmingaþrælum Samfylkingarinnar en að öðru leyti væri mjög fróðlegt að fá að vita hvert viðhorf Vinstri grænna, þingmanna þess flokks, er gagnvart þessu máli. Það væri ekki síst fróðlegt að fá hæstv. fjármálaráðherra hingað í sal til þess meðal annars að útskýra fyrir okkur þingmönnum af hverju viðhorfsbreyting hefur orðið hjá Vinstri grænum frá árinu 2007, þar sem talað var um víðtæka sátt í þessu máli og öðrum, eins og til dæmis í þingskapamálum, til að ná breytingum þannig í gegn.

Ég held að það (Forseti hringir.) væri fróðlegt, frú forseti, að (Forseti hringir.) fá hingað í sal fleiri þingmenn Vinstri grænna (Forseti hringir.) og fá þá líka á mælendaskrá.