139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er engu líkara en að stjórnarandstæðingar séu tímabundnir og þurfi að komast í eitthvað annað. Og úr því að minnst er á óeiningu stjórnarmeirihlutans eru búnar að koma fram a.m.k. fjórar ef ekki fimm ólíkar skoðanir innan Framsóknarflokksins á því máli sem hér er til umræðu í dag og allir sem fylgjast með umræðum um stjórnmál á Íslandi í dag vita að allt logar í illdeilum innan Sjálfstæðisflokksins. Þar eru menn enn þá að velta fyrir sér hver eigi að vera formaður þar til lengri tíma (Gripið fram í.) og er farið að skipast í fylkingar í þeim efnum. Það skyldi þó aldrei vera að við séum orðin fórnarlömb þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki tíma til að ræða brýn þjóðfélagsmál sem eru til umræðu vegna þess að þeir þurfa að drífa sig í formannsslagsmál innan eigin flokks? (Gripið fram í.) Kannski getum við fengið einhverja skýringu á því.

Ég mótmæli orðum hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um að ég hafi sagt að það væri bull og vitleysa sem færi fram í kvöld, (Gripið fram í.) það voru þau orð sem hann notaði.