139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í ljósi svars, ef kalla á það svar, frá hæstv. forseta, þá er ég ekki næst heldur þarnæst á mælendaskrá. Ég þarf að hafa hæstv. fjármálaráðherra í salnum því að ég þarf að spyrja hann ákveðinna spurninga, meðal annars út af kostnaðarmatinu sem var vægast sagt mjög óljóst og loðið. Nú hefur frumvarpið til viðbótar, í meðförum þingsins, tekið gagngerum breytingum. Ég þarf að fá að vita, af hálfu hæstv. fjármálaráðherra, hvernig honum hugnist þær breytingar út frá ríkisfjármálum.

Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra skilur þessa bón og þessa ósk mína því að hann átti þetta til og fannst mjög eðlilegt að þáverandi ráðherrar kæmu hingað til að liðka fyrir þingstörfum. Hann er kannski búinn að gleyma þessu eins og ýmsu öðru sem hann sagði árið 2007 og fyrr. En ég fer fram á það við hæstv. forseta að hann kalli til hæstv. fjármálaráðherra til að liðka fyrir þingstörfum, til að svara spurningum þingmanna vegna þessa máls sem hæstv. forsætisráðherra vill svo með öllu afli troða í gegnum þingið.