139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Það voru athyglisverðar umræður undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, sem mér finnst yfirleitt mjög leiðigjarn og ekki skila miklum árangri. Ég held að hæstv. forseta og hv. forsætisnefnd ættu að íhuga að fjalla aðeins um það á næsta fundi sínum hvort það væri æskilegt að hæstv. forseti væri nákvæmari í svörum sínum gagnvart þingheimi þegar verið er að kalla eftir einföldum og skýrum svörum.

Ég vil líka segja að mér fannst ummæli hv. þm. Róberts Marshalls áðan afar ósmekkleg þar sem hann talar um að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki fjallað um þetta mál vegna einhverra innbyrðis deilna út af landsfundi. Það finnst mér mjög dapurlegt innlegg í málið.

Mér fannst hv. þm. Pétur Blöndal svara þessu mjög vel þegar hann sagði að þegar menn kjósa til forustu, hvort sem er í Sjálfstæðisflokknum eða öðrum stjórnmálaflokkum á landsfundum, er það einfaldlega lýðræði og það hefur akkúrat ekkert að gera með þetta mál sem við ræðum hér. (Gripið fram í.) Já, ég verð að viðurkenna, hv. þm. Róbert Marshall, að mér fannst þetta ekki merkilegt innlegg í umræðuna af hálfu formanns allsherjarnefndar þegar hann var sakaði aðra um að vera með eitthvert þvaður um þetta mál sem við erum að fjalla um. Mér fannst það ekki merkilegt innlegg, ég verð að viðurkenna það. Það getur vel verið að við deilum ekki skoðunum um það en þegar menn kjósa til forustu er það einfaldlega lýðræði.

Mig langar aðeins að ræða um hvernig þetta mál kemur inn í þingið. Ég stóð í þeirri meiningu að það væru skýr skilaboð frá hæstv. forseta þingsins að þau mál sem væru ekki afgreidd út úr nefndum fyrir þingfund sem átti að hefjast á föstudeginum yrðu ekki tekin til afgreiðslu. Þetta voru þær upplýsingar sem ég hafði. Við vorum að vinna að sveitarstjórnarlögunum í samgöngunefnd þar sem var mikil sátt og samvinna um meðferð þess máls. Forusta hv. samgöngunefndar reyndi að vanda til verka með hv. þm. Björn Val Gíslason fyrir starfi nefndarinnar sem formaður. Það var enginn ágreiningur um hvernig bæri að vinna það. Þetta var mikið mál sem þurfti að skrifa mikið nefndarálit um. Allir skrifa undir það, þó að ég sé reyndar með fyrirvara á því, það er ekkert minnihlutaálit en nefndarálitið er rúmar 30 blaðsíður. Þess vegna þurfti að vanda til verka og fara mjög yfir allar þær breytingartillögur þannig að þingskjalið yrði sem vandaðast. Það var markmið nefndarinnar við meðferð málsins. Menn höfðu miklar áhyggjur af því og ég var sérstaklega beðinn um að fjalla um það á þingflokksfundi okkar sjálfstæðismanna hvort við mundum nokkuð gera athugasemdir við að það mál kæmi til afgreiðslu núna á septemberþinginu þó að það yrði ekki tekið út úr nefndinni fyrr en á mánudagsmorgninum. Það gerði ég samviskusamlega og það var samþykkt í mínum þingflokki að gera ekki athugasemdir við þau vinnubrögð þó að málið yrði tekið svona út. Þess vegna kom mér þetta dálítið á óvart. Við þekkjum þá sögu sem búið er að fara yfir í sumum ræðum í kvöld, að gerð var tilraun til að taka þetta mál út á föstudeginum. Það var fellt. Síðan var það tekið út á mánudeginum með ákveðnum viðbótarbreytingartillögum og það allt kom mér dálítið spánskt fyrir sjónir.

Ég ætla að fjalla örstutt um eina breytingartillöguna, þá að fundir ríkisstjórnarinnar skuli vera hljóðritaðir. Í stuttu máli er ég algjörlega sammála hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur um að ég telji þetta ekki munu ná tilgangi sínum. Ef menn vilja munu þeir fjalla um málin annaðhvort fyrir eða eftir sjálfan fundinn og viðkomandi ríkisstjórn á hverjum tíma lætur einungis hljóðrita það sem almenningur má fá aðgang að. Þetta fjallar ekki sérstaklega um þessa hæstv. ríkisstjórn frekar en einhverja aðra sem mun koma á eftir. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel þetta ákvæði og þessa breytingartillögu ekki skynsamlega.

Mig langar líka að fjalla um hvernig þetta mál ber inn í þingið. Við vitum að það er mjög mikilvægt að hafa samráð um suma hluti meira en aðra, til að mynda tel ég mjög mikilvægt í máli um breytingar á Stjórnarráði að við reynum að hafa ákveðið samráð, sérstaklega við upphaf málsins og auðvitað við meðferð þess hjá þinginu. Ég hefði talið skynsamlegra að taka fyrr upp samráð vegna þess að þá deildum við kannski ekki svo mikið um það. Eftir að hafa lesið nefndarálitin og hlustað á umræðurnar er niðurstaða mín sú, það getur vel verið að ég átti mig ekki rétt á hlutunum, að ekki standi mjög mikið út af. Það er aðallega ein grein sem menn deila hart um, 2. gr. frumvarpsins. Það kom dálítið merkilegt innlegg inn í þá umræðu í dag frá hv. þm. Eygló Harðardóttur um hvernig hugsanlega mætti nálgast það deilumál. Margir hv. þingmenn hafa miklar áhyggjur af því með hvaða hætti er hugsanlega verið að framselja vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins sem ég held að sé ekki vilji neins hv. þingmanns. Þessar spurningar vakna og það er mjög mikilvægt að farið verði yfir þær, sérstaklega í ljósi þess að við höfum fengið ábendingar frá umboðsmanni Alþingis um að það sé oft og tíðum verið að framselja allt of mikið vald til ráðherranna, þ.e. framkvæmdarvaldsins. Það er nokkuð sem við þurfum að breyta og hafa með öðrum hætti en ég mun víkja betur að því seinna í ræðu minni.

Það sem er líka sérstakt við þetta mál er að þegar byrjað var að ræða sameiningu ráðuneyta var lagt upp með að búa til þrjú ný ráðuneyti úr sex, þ.e. það átti að búa til innanríkisráðuneyti úr samgönguráðuneyti og dómsmálaráðuneyti, það átti að búa til velferðarráðuneyti úr heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og síðan var meiningin að búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Niðurstaðan varð sú eins og við munum og þekkjum vel að einungis tvær breytingar voru gerðar. Annars vegar var búið til innanríkisráðuneyti og hins vegar velferðarráðuneyti. Ég hefði talið skynsamlegt, virðulegi forseti, að gera akkúrat það sem bent er á í nefndarálitinu sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson skrifa, að leggja mat á það hvernig sú breyting á Stjórnarráðinu hafi tekist og hvað megi læra af þeirri sameiningu. Við hefðum þá getað nýtt okkur það við það sem við erum að gera hér núna. Það hefði að mínu viti átt að vinna þetta mál í meira og nánara samhengi.

Síðan eru margar yfirlýsingar sem kristallast í óeiningu innan stjórnarflokkanna um hvernig staðið skuli að þessum málum. Það er til að mynda mjög skýrt í ræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hún upplýsir á þinginu í nóvember 2010 að það verði stefnt að því að atvinnuvegaráðuneyti taki til starfa í mars 2011, þ.e. fyrir hálfu ári. Þá sá hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að búið yrði að sameina ráðuneytin og búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það kemur fram í andsvari hæstv. forsætisráðherra við mig. Þar vitnar hún einmitt til þess að það sé skrifað inn í stjórnarsáttmálann hvernig staðið skuli að málunum. Það endurspeglar þær deilur sem verið er að benda á um það hvernig þetta mál hefur verið unnið. Það hefði að sjálfsögðu verið miklu farsælla að gera það með öðrum hætti.

Ég sit nú í hv. fjárlaganefnd, fylgist að mínu mati sæmilega vel með þar og verð að viðurkenna að ég hef töluverðar áhyggjur. Þess vegna er það mjög mikilvægt sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson bentu á, að það þarf að fara yfir þann feril sem við erum búin að ganga í gegnum. Það vakti mikla athygli mína, og ég benti oft á það þegar við samþykktum fjárlög fyrir árið 2011, að hagræðingarkrafan á þau ráðuneyti var minni en önnur. Þó að það væri yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og meining forustumanna hennar að stjórnsýslan tæki á sig 9% hagræðingarkröfu er einungis 3% og 4% hagræðingarkrafa á þessi tvö ráðuneyti. Það væri líka hollt fyrir okkur að ræða það á málefnalegum nótum og fara efnislega yfir það hvernig hafi tekist til. Ég hef verið hugsi yfir því, til að mynda með þetta stóra ráðuneyti, velferðarráðuneyti, hvort það sé yfir höfuð gerlegt. Hefði sú vinna farið fram sem ég er að benda á hefði verið forvitnilegt að sjá hvort það hefði verið skynsamlegra að hafa það öðruvísi. Við hefðum getað rætt það við þessa breytingu að leggja það hugsanlega til að hafa aðstoðarráðherra í því ráðuneyti. Ég held því ekki fram að hæstv. velferðarráðherra standi sig ekki vel, það má ekki skilja orð mín þannig, heldur vil ég bara taka umræðu um hvað við hefðum getað lært af þessu. Í því ráðuneyti erum við með mjög stóran hluta af heildarútgjöldum ríkisins. Hvað er að koma í ljós núna? Við framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2011 kemur í ljós að það ráðuneyti hefur ekki náð þeirri hagræðingu sem samþykkt var í fjárlögum Alþingis. Það eru bara blákaldar staðreyndir. Þess vegna hefði ég talið eðlilegra eins og ég er búinn að koma að að við hefðum skoðað þetta í því samhengi og værum í þessum umræðum að reyna að ná fram markmiðum okkar. Hvernig vildum við sjá þessa hluti þróast og verða til framtíðar? Við vitum að ríkisstjórnir koma og fara, eins og hv. alþingismenn, þannig að það er mjög mikilvægt að við reynum að skynja hvorum megin við borðið sem við erum, ef ég má nota það orðalag, til að læra af því sem við erum að gera.

Hvers vegna segi ég þetta? Þegar verið var að samþykkja fjárlög fyrir árið 2011 benti ég á það í ræðum að forstjóri Sjúkratrygginga Íslands hefði bent okkur á það í hv. fjárlaganefnd að hefði sú hagræðingarkrafa sem sett var á þá stofnun átt að ganga eftir yrði að breyta lögum á Alþingi til að minnka þann útgjaldaramma sem þeirri stofnun var falinn samkvæmt lögum. Það hefur ekki verið gert og það var vitað, og það benti ég á hér, að ef þessu yrði ekki breytt hefðum við samþykkt fjárlög vitandi að þau mundu ekki standast. Þessum vinnubrögðum verðum við að breyta. Ef við ætlum að ná tökum á ríkisfjármálunum verðum við að gera það með þessum hætti og líka til að beita aga í ríkisfjármálunum sem er mjög mikilvægt að við gerum, kannski ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna. Það er mikilvægt að við ræðum þetta á þessum nótum.

Ég vil taka sérstaklega fram að ekki er allt í þessu máli vont, aldeilis ekki. Mér finnst hins vegar sumar greinar þess ganga of skammt og vil ganga enn þá lengra þannig að við þurfum að ræða þetta hér.

Ég hef líka vakið athygli á því að við það að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti, með því að sameina það iðnaðarráðuneytinu sem hefur verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar alveg frá því að hún tók við, spyrjum við oft hvort það sé skynsamlegt að gera það við núverandi aðstæður þegar búið er að senda inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Er það skynsamlegt? Ég tel ekki. Ég tel líka mikinn akkillesarhæl á þeirri sameiningu þar sem á að færa töluvert á milli og búa til svokallað umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Mér hefur oft fundist umræðan á villigötum þegar menn hafa áhyggjur af því að iðnaðarráðuneytið sem er mjög lítið miðað við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið muni gleypa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Ég hef ekki áhyggjur af því. Hins vegar finnst mér að við þurfum að ræða þetta út frá því hvort það sé skynsamlegt að taka þessa þætti frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og færa þá yfir í umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sérstaklega í ljósi þess að allir hagsmunaaðilar hafa lýst áhyggjum af því. Þess vegna slæ ég varnagla við því að búa til þetta atvinnuvegaráðuneyti.

Síðan langar mig að fjalla örlítið um einstakar greinar frumvarpsins þótt ég nái að sjálfsögðu ekki að fara yfir þær allar. Ég staldra við ákveðnar setningar í frumvarpinu. Það er búið að ræða mjög mikið 2. gr. og ég get ekki annað sagt, og ítreka það sem ég sagði, en að ég trúi því ekki að það sé meining einhverra hv. þingmanna, alveg sama hvar í flokki þeir eru, að veikja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég neita að trúa því. Hins vegar er með þeim heimildum sem hér eru settar fram mjög einfalt, og hafa verið færð fyrir því mjög góð rök, að færa þessi völd til framkvæmdarvaldsins og þá er hætta á að það gerist. Það þurfum við að ræða efnislega. Við megum ekki gleyma því að við megum ekki ræða þetta alltaf í núinu. Við verðum líka að hugsa um að við getum ekki verið að breyta Stjórnarráðinu og lögum um það á tveggja ára fresti eða svo. Ég held að það sé búið að gera þrjár breytingar eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við. Við verðum að hugsa breytingarnar fram í tímann.

Í niðurlagi 4. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Komi upp vafi eða ágreiningur um það undir hvaða ráðuneyti stjórnarmálefni heyrir sker forsætisráðherra úr.“

Getur verið að við séum að samþykkja lög þó að það sé ekki klárt hvernig viðkomandi málaflokkar eiga að vera eða undir hvaða ráðuneyti? Er þetta staðfesting á því sem margir hv. þingmenn hafa haldið fram, að það sé verið að færa allt of mikil völd til hæstv. forsætisráðherra á hverjum tíma til að það þurfi að vera með svona ákvæði inni í lögunum? Þetta vekur mig til umhugsunar.

Mig langar líka að ræða örlítið um 6. gr. Það getur vel verið að hún verði til bóta því að eins og þetta er í dag er það að mínu viti algerlega forkastanlegt. Þetta virkar þannig í dag og hefur eflaust gert fyrir mína þingsetu, ég þekki það ekki, að þetta er stjórnlaust. Þar er einmitt verið að fjalla um samhæfingu starfa á milli ráðherra og hvað þarf að gera. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Til mikilvægra stjórnarmálefna teljast t.d. reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar eða ef sýnt þykir að reglugerð eða yfirlýsing geti haft á áhrif á útgjöld ríkissjóðs umfram fjárheimildir eða á efnahagsmál almennt.“

Getur verið að menn ætli sér að reyna að girða fyrir það? Eins og þetta hefur verið hefur mér þótt mjög sérkennilegt að sjá í fréttatímum einstaka ráðherra koma fram og tilkynna í raun að þeir hafi tekið ákvörðun um að auka fjárútlát í þessum eða öðrum lið. Mér finnst það ekki ásættanleg vinnubrögð. Það er ekki búið að gefa heimild fyrir því. Síðan er öllu safnað saman og flutt frumvarp til fjáraukalaga í desember. Yfirleitt heyra hv. þingmenn um það í einhverjum fréttatilkynningum eða yfirlýsingum frá einstökum ráðherrum. Þetta finnst mér ekki boðleg vinnubrögð vegna þess að það er alveg skýrt hvaða fjárheimildir viðkomandi ráðuneyti og ráðherrar hafa og hæstv. ríkisstjórn. Ekki síst er þetta undarlegt í ljósi þess að það er ákveðinn liður í fjárlögum í dag, liður sem var settur inn fyrir tveimur árum og á að mæta óvæntum og ófyrirséðum kostnaði, gert ráð fyrir ákveðnu bili. Nú eru þetta einir 4 milljarðar. Ég hef tekið margar rimmur um þetta og sérstaklega við einstaka hv. þingmenn Framsóknarflokksins. Ég tel nefnilega mjög skynsamlegt að hafa þarna inni lið þar sem þetta er hugsað gagnvart gengisbreytingum, launahækkunum, einhverju óvæntu og ófyrirséðu, eldgosum eða einhverjum öðrum hamförum. Ég tel þetta mjög skynsamlegt til að reyna að ná utan um fjárlögin í heild sinni, að þau séu þá marktækt plagg, a.m.k. skárri uppsetning en var. Þess vegna er enn þá verra þegar komið er með yfirlýsingar eins og þessar.

Ég tók eftir einu í ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur í dag sem ég er algerlega sammála henni um. Hún orðaði það svo, ef ég man rétt, að ráðuneytið væri ekki þannig að það væri verið að stýra því með pólitískum gjörðum einstakra ráðherra, kannski til heimabrúks ef ég má orða það svoleiðis þó að hv. þingmaður hafi orðað það öðruvísi.

Ég hef fylgst dálítið mikið með sjávarútvegsmálum. Hið meinta fórnarlamb að mati margra hv. þingmanna, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ég lít alls á sem neitt fórnarlamb, hefur hagað sér með þeim hætti í reglugerðarsetningum og gengið þannig fram að mér hefur algjörlega verið misboðið.

Ég ætla að nefna tvö dæmi, annars vegar þegar hæstv. ráðherra ákvað að setja rækjuveiðarnar í sóknarmark aftur en ekki aflamark. Hvernig er sú ákvörðun tekin? Ég ætla ekki að fjalla efnislega um þá ákvörðun sem slíka, en hvernig var hún tekin? Það var bara sett saman reglugerð. Hún var ekki einu sinni kynnt í hæstv. ríkisstjórn. Það upplýst hæstv. iðnaðarráðherra sem sat uppi með 700 millj. kr. gat á Byggðastofnun vegna þessa gjörnings, það var ekki rætt í hæstv. ríkisstjórn. Þetta finnst mér stjórnsýsla á allt of lágu plani, þessu þarf að breyta og það er akkúrat hluti af því sem verið er að reyna að gera með þessu frumvarpi sem ég tel reyndar jákvætt, þetta fjölskipaða stjórnvald þannig að menn þurfi að upplýsa hæstv. ríkisstjórn á hverjum tíma um fyrirætlanir einstakra ráðherra þegar þær hafa þessar afleiðingar.

Annað sem mig langar að nefna hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er sú aðför, það er ekkert annað en aðför, að þeim aðilum sem stunda dragnótaveiðar. Ég stunda ekki dragnótaveiðar svo það komi skýrt fram þó að ég hafi töluverða reynslu af þeim, ég var til margra ára skipstjóri á dragnótaveiðum, en rökin fyrir þessari herferð hæstv. ráðherra eru engin. Hann gerði þetta bara vegna þess að þetta hentar, eins og einn hv. þingmaður orðaði það í dag, til pólitísks heimabrúks. Þetta eru ekkert mjög margar útgerðir, þetta er hávær krafa frá trillukörlum á engum rökum reist um að það þurfi að færa þessa báta aðeins frá þeim af því að þeir séu að veiða fiskinn þeirra og þar fram eftir götunum. Þess vegna er þetta notað til pólitísks heimabrúks. Hæstv. ráðherra setur svona reglugerðir og fer í þessa aðför sem virðist engan enda ætla að taka. Mér finnst að svona ákvarðanir þurfi að kynna og ræða í hæstv. ríkisstjórn, ég tala nú ekki um þörfina á að leggja þær fyrir hv. Alþingi. Mér finnst allt sem bætir svona vinnubrögð og þessa stjórnsýslu vera til bóta.

Ég hef sagt áður í þessum ræðustól að mér þyki mjög eðlilegt að þegar tekin er ákvörðun um heildarafla á hverju fiskveiðiári ráði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra því algjörlega sjálfur. Hann kynnir það ugglaust í ríkisstjórn og fær samþykki forustumanna hennar en mér finnst að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þurfi, sérstaklega í ljósi skoðanaágreinings á milli þeirra sem stunda sjómennsku og eru á miðunum og Hafrannsóknastofnunar, að mæla fyrir þingsályktunartillögu um hvað hann leggur til og færi fyrir því rök. Við gætum tekið efnislega umræðu um það. Ég hefði viljað gera það á tveimur síðustu fiskveiðiárum, þ.e. frá því að ég settist á þing. Að mínu mati er búið að glopra þar óhemju tækifærum sem er með ólíkindum. Þannig hefur alltaf verið gert en ættum við ekki að ræða hér hvernig við getum breytt þessum hlutum til að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu en ekki öfugt? Þessa hluti þurfum við að ræða. Það getur vel verið, og ég efast ekki um það, að margir hafi aðra skoðun á þessu en ég og þá koma þeir með sín rök á móti. Það er bara hið besta mál. Þegar fólk rökræðir hlutina hefur maður þá tilfinningu að það sé hægt að komast að þeirri skynsamlegu niðurstöðu sem æskileg er.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna hvernig vinnan við fjárlögin fer fram. Mér finnst, virðulegi forseti, að við þyrftum að breyta því vinnuferli og það hefur verið rætt í hv. fjárlaganefnd. Ég held að það sé enginn ágreiningur um markmiðið með henni en við höfum ekki klárað þá vinnu. Það er mikilvægt að við gerum það og komumst áfram. Allir vita að við lentum í efnahagshruni og að við erum með gríðarlega mikinn halla á ríkisfjármálunum sem við þurfum að fara vel yfir. Síðan hafa einstakir hv. þingmenn haft áhyggjur af safnliðum. Ég hef ekki eins miklar áhyggjur af þeim, enda stend ég heils hugar að því með meiri hluta hv. fjárlaganefndar að fara í ákveðnar breytingar þar sem við teljum til framfara. Þar er ekki hugsun hv. nefndar að færa framkvæmdarvaldinu aukin völd eins og margir halda fram. Því fer fjarri. Við viljum vanda vinnubrögðin, gera þau faglegri, að allir sitji við sama borð. Það er meining okkar hv. þingmanna sem sitjum í nefndinni. Við höfum ekkert annað markmið. Það sem við erum að reyna að feta okkur áfram í er hvernig við getum unnið af meiri fagmennsku og að við náum fram þeim markmiðum sem við settum okkur.

Mig langar aðeins að staldra við 21. gr. Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar finnst mér að þar þyrftum við að ganga lengra. Ég hefði helst viljað sjá að það væri hægt að ráða inn í Stjórnarráðið í heild sinni, þ.e. ekki inn í einstaka ráðuneyti, að við mundum einmitt fella þessa múra sem hafa verið nefndir. Það er líka umhugsunarefni í ljósi þess að við höfum verið að fjalla um ákveðið mál í þinginu, til að mynda hefur hv. samgöngunefnd fjallað um sameiningu ákveðinna stofnana. Ég tel að sumir hv. þingmenn í samgöngunefnd hafi séð frekari tækifæri í að sameina stofnanir og að það sé skynsamlegri niðurstaða en lagt er til en þá stoppar það á þessum girðingum milli ráðuneyta. Það er ekki skynsamlegt. Við eigum að horfa fram hjá þeim og ná sem bestri sameiningu út úr stofnununum, sama hverjar þær eru. Þá hættum við að lenda í því sem hefur komið klárlega fram og hefur verið akkillesarhæll til langs tíma, að þá komi upp sú staða að viðkomandi einstakir hæstv. ráðherrar fari hugsanlega að berjast á móti skynsamlegri sameiningu á stofnunum vegna þess að þá sé verið að færa einhverja stofnun frá þeim til einhvers annars. Þetta eru vinnubrögð sem við eigum að leggja af. Við eigum að komast upp úr þessu. Við höfum ekki efni á öðru en að ná fram sem mestri og bestri hagræðingu í rekstri ríkisins. Það er staðreyndin. Þetta hefur til að mynda stoppað ýmsar hugmyndir.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að ráða inn í Stjórnarráðið lögfræðing, hagfræðing eða hvaða sérhæfða starfsmann sem er. Það er ekki þar með sagt að það sé þá heimild fyrir þá sem stýra Stjórnarráðinu á hverjum tíma að henda viðkomandi einstaklingum á milli starfa, á milli ráðuneyta sí og æ. Hugsunin er ekki sú. Ég tel ekki að það verði vilji viðkomandi stjórnvalda á hverjum tíma þó að starfsmaðurinn ráði sig bara inn í Stjórnarráðið. Ég get tekið dæmi af lögfræðingum, sem eru töluvert margir í Stjórnarráðinu, þá væri hægt að færa þá milli ráðuneyta eftir álagi. Við næðum skynsamlegri nýtingu á mannaflanum. Það getur vel verið að þessar hugmyndir mínar gangi of langt, ég skal ekki fullyrða um það, en ég sé ekki þessa annmarka á því og hef ekki miklar áhyggjur af því hvernig þetta gerist, þ.e. að það sé ekki hægt að gera það þannig að menn ráði sig bara í Stjórnarráðið. Væri það ekki líka vandaðra ráðningarferli? Þá væri bara ein mannauðsskrifstofa og ferlarnir væru markvissari, ekki mismunandi á milli ráðuneyta. Ég velti þessu fyrir mér. Það ætti að vera einfaldara og betra. Ég tek alveg til greina og hugsa vandlega það sem kom fram í svari hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur í dag, það gætu verið einhverjir annmarkar á því og það mætti ekki ganga það langt að það væri nánast hægt að setja fólk bara fram og til baka eftir geðþóttaákvörðunum einstakra ráðherra. Ég geri mér fulla grein fyrir því en þetta er nokkuð sem við þyrftum að ræða. Kannski er þetta skref of stórt, það getur vel verið, en ég tel að við þurfum að fara betur yfir þetta og er enn þeirrar skoðunar að við ættum að ráða inn í Stjórnarráðið í heild sinni. Það væri þá fjölskipað stjórnvald. Ég sé enga hættu við það þó að einstaka starfsmenn séu ráðnir inn í Stjórnarráðið og skipað síðan úr einu ráðuneyti í annað. Ég sé ekki mikla hættu við það.

Mig langar sérstaklega að nefna til stuðnings þessari skoðun minni að það er staðreynd að við erum ekki búin að afgreiða á þinginu lokafjárlög fyrir árið 2009. Hvers vegna er það? Vegna þess að vinnuferlið við þessa ákveðnu hluti er að þegar búið er að skila ríkisreikningnum eru starfsmenn fjármálaráðuneytisins komnir á kaf við undirbúning fjárlagafrumvarpsins. Þetta er nokkuð sem við verðum að ræða og færa í betra horf. Það er ekki hægt að við skulum ekki vera búin á hausti 2011 að afgreiða ríkisreikning 2009. Þetta gengur hvergi nokkurs staðar í rekstri fyrirtækja, hvað þá í rekstri ríkissjóðs. Það eru gríðarlega miklar breytingar sem eiga sér stað. Í ríkisreikningnum eiga sér stað einhvers konar lokalokafjárlög sem eru í raun og veru búin að þróast í gegnum árin. Þessu verðum við að breyta.

Ef hægt væri að færa til verkefni og létta undir með þeim góðu starfsmönnum fjármálaráðuneytisins á ákveðnum álagstímum fyndist mér eðlilegra að það fólk sem starfar í Stjórnarráðinu tæki þátt í því. Við þurfum að breyta þessu. Ég tel að ekki sé mikill ágreiningur um það en þá þurfum við að hugsa um þessa hluti.

Í 22. gr. er fjallað um heimild ráðherra til að ráða til starfa í hverju ráðuneyti fyrir sig einn aðstoðarmann og einn ráðgjafa, sem svo er kallað, og síðan er lagt til í frumvarpinu að það verði þá gert í lok kjörtímabils eða við upphaf þess næsta. Síðan kemur breytingartillaga frá hv. allsherjarnefnd um að það verði heimilað að gera það um leið og lögin taka gildi. Ég hef verið að hugsa það töluvert undanfarið hvort þetta þýði fjölgun starfsmanna hjá hæstv. ráðherrum eða jafnvel fækkun. Það er búið að fara yfir ráðningar inn í Stjórnarráðið þannig að ég velti fyrir mér hvort ekki þyrfti að skilgreina þetta betur. Það væri áhugavert að fá það fram hjá hv. þm. Róberti Marshall sem ég sá að biður strax um andsvar við mig. Var til að mynda rætt í hv. allsherjarnefnd um það hvað aðstoðarmenn ráðherra eru og hvað ráðgjafar? Ég spyr um hið meinta fórnarlamb sem ég kalla svo, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem þetta virðist eiga að snúast allt um þó að ég sjái ekki alveg samhengið í því. Síðan hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur hann til að mynda ráðið fjölmiðlafulltrúa eða upplýsingafulltrúa. Er það aðstoðarmaður eða er það ráðgjafi? Ég spyr. Var rætt í hv. allsherjarnefnd með hvaða hætti þessir hlutir eru gerðir? Þessi starfsmaður var ekki í ráðuneytinu þegar hv. þm Einar K. Guðfinnsson stýrði því, þá var enginn upplýsingafulltrúi. Síðan er búið að ráða ráðgjafa frá útgerðarfélagi, verktaka sem er sérstakur ráðgjafi hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Síðan er hann með eitt stykki aðstoðarmann. Hvar eru mörkin? Er hægt að fara í kringum þetta og ráða sér aðstoðarmann og ráðgjafa en síðan upplýsingafulltrúa og eitthvað annað? Hvernig var þessi umræða í nefndinni? Ég er dálítið hugsi yfir því. Væri þetta hugsanlega fækkun — eða er þetta fjölgun? (RM: Þetta var fjölgun.) Já. Það er sagt að það megi ráða 20 manns og síðan þrjá ráðgjafa en þá er mjög mikilvægt að skilgreina hvað eru ráðgjafar og hvað því fylgir að vera með í ráðuneytunum. Þetta sjáum við nú þegar. Þetta eru staðreyndirnar.

Mín skoðun er sú og hefur alla tíð verið að það sé miklu skynsamlegra fyrir okkur að halda starfsfólki á heilbrigðisstofnununum en að úthluta svona bitlingum. (Gripið fram í.) Það er mín skoðun. Auðvitað er það miklu skynsamlegra. Af því að ég er að ræða fórnarlambið meinta eins og ég orða það, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er mér mjög minnisstætt þegar haldinn var mjög fjölmennur fundur á Sauðárkróki fyrir ári þegar fjárlögin fyrir árið 2011 voru kynnt. Þá gerðist það að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mætti á fund og svar hans við spurningu um hvort hann stæði við það að styðja fjárlagafrumvarpið með þeim mikla niðurskurði og aðför sem var gerð að heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, reyndar hafði það verið gert á undan á mörgum öðrum stöðum en ég ætla að nefna bara þennan sérstaka fund, var svarið þetta: Ja, hjarta mitt slær með ykkur heimamönnum. Síðan var það upplýst af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, þingflokksformanni Vinstri grænna, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði engar athugasemdir þegar þetta var samþykkt í ríkisstjórn.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst óskaplega ódýr málflutningur þegar menn vilja, þegar á reynir, láta byrðarnar lenda á einhverjum öðrum. Þó að ég ætli ekki að fara að verja ákvarðanir einstakra fagráðherra velti ég þessu upp í þessari umræðu, einstaka fagráðherrum var falið að skera niður ákveðna hluti, leggja síðan fram tillögur um hvernig þessir hæstv. fagráðherrar geta náð fram því sem þeim er ætlað að gera, leggja þær síðan fram og fá samþykktar í ríkisstjórn, engar athugasemdir, svo þegar menn koma heim er þetta svarið: Ja, hjartað slær með ykkur, ég er bara hvítþveginn engill. Þetta finnst mér dapurlegur stuðningur við samherja sína.

Fyrst og fremst vil ég, virðulegi forseti, enda á því sem ég byrjaði á að segja. Það getur vel verið að mér skjátlist um það en ég les út úr nefndarálitinu að það sé styttra á milli manna. Sumt er til bóta í þessu frumvarpi að mínu mati, um sumt mætti ganga lengra til að bæta stjórnsýsluna. Ég trúi því ekki og ítreka að ef menn settust niður og ræddu þetta, a.m.k. þeir hv. þingmenn sem eru lausnamiðaðir, efast ég ekki um að samkomulag næðist um megnið af þessu frumvarpi eins og við höfum oft sýnt í meðferð þingsins á sumum erfiðum málum. Þegar lausnamiðaðir menn setjast niður er oft hægt að lenda málum. Við verðum að hugsa að þetta sé gert í samráði og samstarfi eins og hægt er til að við séum ekki að breyta þessu eftir kannski mjög stuttan tíma þegar hér koma önnur stjórnvöld. Ég bind miklar vonir við að þeir sem ráða ferð í þessu máli muni setjast niður og ræða það ítarlegar en gert hefur verið hingað til.