139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðu hans í kvöld. Sérstaklega vil ég taka undir andsvarið sem hann veitti hv. þm. Róberti Marshall því við erum einstaklega samstiga og sammála í áliti okkar á Samfylkingunni og því hvernig sífellt er hægt að velta sér upp úr fortíðinni. Það er nefnilega eins og Samfylkingin sé fortíðarlaus þrátt fyrir að hún sé búin að sitja núna í rúm fjögur ár í ríkisstjórn, hún virðist alltaf koma fram hvítskúruð.

Varðandi foringjaræðið sem þingmaðurinn ræddi þá er verið að tala um að þetta frumvarp sé ekki svo foringjavætt vegna þess að formenn stjórnmálaflokka hafi hér áður farið frjálslega með það ræði, að mati Samfylkingarinnar. Hvað finnst þingmanninum um að verið sé að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið eins og kemur fram í frumvarpinu, færa vald frá þinginu og yfir í Stjórnarráðið undir stól hæstv. forsætisráðherra? Ég hef verið að gantast með það að það er eins og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir haldi að hún ætli að ríkja í a.m.k. næstu 110 ár, svo mikið vald virðist hún vera að taka sér í frumvarpinu, því það er hæstv. forsætisráðherra sem leggur það fram.

Eins tek ég undir vangaveltur þingmannsins um aðstoðarmennina. Ég vil minna á að ég hef lagt fram fyrirspurnir á þingi varðandi verktakagreiðslur í ráðuneytunum og ég kem til með að draga þær upplýsingar saman um leið og síðasta svar hefur borist til að sýna fram á hverjir það eru sem vinna í ráðuneytunum án þess að vera opinberir starfsmenn. Oft og tíðum eru það þessir svokölluðu verktakar, einstaklingar sem geta ekki gert sér að góðu samning opinberra starfsmanna heldur þurfa að koma inn sem verktakar í ráðuneytin. Auðvitað eru þetta ekkert annað en aðstoðarmenn eða upplýsingafulltrúar eða hvað það heitir, (Forseti hringir.) svo að þetta breytist nú kannski lítið. Það er 23 manna hópur (Forseti hringir.) sem á að koma núna inn í Stjórnarráðið, það er kannski fámennur hópur miðað við þann sem fyrir er.