139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins um það að færa völdin frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins. Það er hægt að færa fyrir því rök að með frumvarpinu sé hæstv. forsætisráðherra á hverjum tíma færð afskaplega mikil völd. Við megum heldur ekki gleyma því að við erum ekki að setja lög sem gilda bara á meðan þessi hæstv. ríkisstjórn starfar. Fleiri ríkisstjórnir eiga eftir að koma þannig að við þurfum auðvitað að ræða þetta út frá þeirri sýn.

Hvað aðstoðarmennina varðar þá velti ég því upp í ræðu minni hvort þetta sé í raun og veru fjölgun. Ég tiltók eitt ráðuneyti þar sem ég taldi þá upp og af því að ég sá að hv. þm. Róbert Marshall var að koma í andsvar, þá kallaði ég eftir því við hann hvort hann vildi upplýsa mig um hvort það hefði verið rætt, hvort menn gætu ráðið upplýsingafulltrúa og hvort hann væri þá fyrir utan þennan hóp. Ég veit því ekki hvort þetta þýði í raun og veru aukningu á útgjöldum. Mér þætti mjög miður að fjölga í ráðuneytunum, miðað við aðstæður nú, en því miður valdi hv. þingmaður að fara frekar í skítkast en efnislegar umræður.