139. löggjafarþing — 161. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson telur að vantað hafi upp á samráð og samtal við vinnslu frumvarpsins sem nú liggur fyrir í 2. umr. Frumvarpið hefur verið til ítarlegrar umræðu í allsherjarnefnd síðastliðið vor og nú í haust, mjög ítarlegrar umræðu, og menn hafa skipst á skoðunum og tekið hefur verið tillit til ýmislegs sem þar kom fram þannig að ekkert skortir upp á að lögbundið samráð á milli umræðna hafi farið fram. Nú erum við við 2. umr. og eins og hv. þingmaður veit þá er hugsanlegt að málið fari aftur til nefndar eftir 2. umr. þannig að hér er allt samráð haft sem vera þarf.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þingmaður kallar fórnarlambið og vísar til þess að talað var um að stofna atvinnuvegaráðuneyti og fella iðnaðarráðuneytið og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið saman í eitt. Frá þessu var horfið eins og hv. þingmaður veit og þetta frumvarp er augljóslega alls ekki um það málefni. Þetta frumvarp er heildarendurskoðun á Stjórnarráðinu öllu og hvernig unnið er í þeirri stofnun þannig að það er fáránlegt, og ég ætla að nota það orð sem ég notaði við einhvern blaðamann einhvers staðar, það er bull og vitleysa að það sé til þess að koma hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá.