139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur kærlega fyrir að taka þetta brýna mál til umræðu. Það er mikið ánægjuefni að sjá hversu langt Bretar eru komnir í umræðunni um þetta mál vegna þess að umræður um aðskilnað fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi hafa verið miklum mun meiri vestan hafs, í Bandaríkjunum, en í Evrópu. Ein af þeim röksemdum sem hér voru bornar fram þegar þessi mál voru rædd á síðustu tveimur, þremur árum af þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, var einmitt að þetta ætti kannski ekki við í Evrópu, það væri ekki eins brýnt í Evrópu og í Bandaríkjunum að aðskilja þessa starfsemi með lögum.

Ég vil rifja upp að allt frá því að bankarnir voru einkavæddir, illu heilli, hafa þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki aðeins tekið upp umræður um þetta mál heldur ítrekað flutt um það frumvörp að aðskilja beri fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi til að verja sparifé almennings, til að verja skattgreiðendur, til að verja velferðarkerfið okkar gegn því að þurfa að borga fyrir áhættufjárfestingar í bankakerfinu. Það er hlálegt að 3. október 2008 var síðast lagt fram slíkt mál af hv. þáverandi þm. Ögmundi Jónassyni og Jóni Bjarnasyni og það kom til umræðu í þinginu 13. október, (Gripið fram í.) beint í kjölfar hrunsins.

Ég vil segja við hv. þm. Lilju Mósesdóttur að ég og aðrir nefndarmenn í hv. viðskiptanefnd, að ég hygg, erum tilbúin að beita okkur fyrir því að þetta mál verði tekið á dagskrá nýrrar (Forseti hringir.) efnahags- og viðskiptanefndar strax í haust með það fyrir augum að aðskilja þessa starfsemi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)