139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og alþjóð veit er norðaustursvæði landsins svokallað kalt svæði í atvinnulegu tilliti, og ekki nóg með það heldur hafa íbúar svæðisins þurft að þola gríðarlegan niðurskurð á opinberri þjónustu á undanförnum árum. Er vert að minnast þess hversu mikið áfall það var þegar skorið var niður allverulega á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Það hafa verið afar hástemmdar yfirlýsingar frá ríkisstjórninni um að Þingeyingar þurfi að búa sig undir gríðarlega atvinnuuppbyggingu en það er farið að fenna yfir þær yfirlýsingar, Þingeyingar bíða en lítið gerist. Þó var ljós punktur í þessu öllu saman þegar Norðurþing og ríkisstjórnin skrifuðu undir viljayfirlýsingu fyrir nokkru dögum um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Það er jákvætt en ljóst er að mun meira þarf til til að rétta svæðið við.

Það sem er athyglisvert í þeirri viljayfirlýsingu er að þar stendur mjög skýrum orðum að standa eigi vörð um opinbera þjónustu á svæðinu. Ríkisstjórnin skuldbindur sig til að standa vörð um opinbera þjónustu þar.

Nú eru fjárlög fram undan. Fjárlagagerðin hefur staðið yfir og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson er í hópi þeirra sem að því standa. Heyrst hafa þær raddir að skera eigi niður um 8% hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé rétt og hvort það fari saman við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að standa (Forseti hringir.) vörð um opinbera þjónustu á svæðinu.