139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þann 8. september sl. sagði hæstv. starfandi mennta- og menningarmálaráðherra í ræðustól, með leyfi forseta, að:

„[nemendur] hefðu ekki áhuga á að byggja næstu skref á þeim grunni sem kom fram í svokölluðu sáttatilboði …“

Þar var hæstv. ráðherra að tala um Kvikmyndaskóla Íslands.

Það er mikið sagt í þessum orðum þegar fullyrt er að nemendur Kvikmyndaskólans hafi ekki áhuga. Í framhaldi af því bárust okkur þingmönnum öllum, eða í það minnsta mörgum hverjum, athugasemdir m.a. frá nemendum þar sem þeir lýstu furðu á orðum hæstv. ráðherra um að nemendur væru á móti þessu sáttatilboði. Það kemur svo síðar í ljós að það eru líklega þrír nemendur sem spjallað var við um þetta sáttatilboð eða gerðu athugasemdir við það — þrír af öllum fjöldanum, ekki hinir 134.

Við hljótum að spyrja okkur: Hver er stefna þessarar ríkisstjórnar í málefnum Kvikmyndaskóla Íslands og kvikmyndanáms á Íslandi ef menn vilja taka skólann út fyrir sviga? Það hefur líka komið í ljós að Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við hvernig haldið var á fjármunum í rekstri skólans. Jú, það voru líklega of margir nemendur, það er líklega það sem stendur upp úr. En ætlum við að hafa kvikmyndanám á Íslandi í einhvers konar gíslingu eða jafnvel að láta það leggjast af tímabundið? Við hljótum að krefjast þess að fá svör. Ég held að það sé rétt að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra komi hér og geri þinginu grein fyrir því í skýrslu eða með yfirlýsingum um hvað hún hyggst fyrir með þennan skóla því að það getur ekki gengið að hringla svona áfram og sér í lagi ekki að setja fram fullyrðingar sem skilja má þannig að allir nemendur skólans séu á móti því sáttatilboði sem lagt var fram.

Ég spyr líka: Hljóta menn nú ekki að setjast niður og velta fyrir sér hvort sáttatilboðið sé rétta leiðin til að leysa þetta?