139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu þann 17. ágúst eftir að haldnir yrðu fundir í heilbrigðisnefnd um þau þrjú efni sem hv. þingmaður nefndi. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að ástæðan fyrir því að formaður hefur ekki orðið við þessari beiðni er af tvennum toga. Í fyrsta lagi tel ég að tvö fyrri atriðin, þ.e. rekstrarstaða Landspítalans sem er mjög alvarleg og þarf að huga vel að í komandi fjárlagagerð og eins rekstrarhalli Sjúkratrygginga Íslands, eigi að fara inn í umræður um fjárlögin þegar þau verða lögð fram. Þetta er hvort tveggja þess eðlis að það þarf að ræða vel og fara gaumgæfilega yfir í sambandi við fjárlagagerð næsta árs.

Hvað varðar samkomulag um Sjúkratryggingar Íslands og frestun á gildistöku þeirra laga er rétt að núverandi heilbrigðisnefnd hefur ekki fengið upplýsingar um stöðu þeirra mála en ég tel að til að fylgja því eftir sé rétt að við bíðum í nokkra daga þar til nýtt þing kemur saman og ný nefnd verður kosin, velferðarnefnd — hún verður ekki endilega skipuð sömu fulltrúum og eru í heilbrigðisnefnd — sem vinni svo áfram með öll málin. Ég tek undir beiðni hv. þingmanns því að þetta eru allt mjög mikilvæg mál sem verður að ræða og fara yfir en ég tel að þeim sé betur fyrir komið í nýrri velferðarnefnd sem fylgi málunum eftir.