139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan um aðildarviðræður að Evrópusambandinu hefur verið fyrirferðarmikil og farið út um víðan völl síðustu vikur og mánuði og við fengum hluta þessarar umræðu inn í þingsali í gær. Þetta kemur ekki á óvart enda að verða skýr vatnaskil í umræðunni þar sem rýnivinnu, sem er undanfari hinna eiginlegu samningaviðræðna, er nú lokið og komið að næsta alvöruáfanga í viðræðuferlinu.

Andstæðingar aðildarumsóknar hafa leitað allra leiða til að tala niður samningaferlið. Þeir hafa talið sig finna styrk og stuðning, m.a. í þeim einstöku yfirlýsingum forustumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á sumarmánuðum, hv. þm. Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, að slíta eigi nú þegar öllum frekari samningaviðræðum við Evrópusambandið. Ætla mætti af tali þessara forustumanna stjórnarandstöðunnar að stærsti hluti þjóðarinnar væri andvígur viðræðuferlinu. Nú liggur hins vegar fyrir endurtekin staðfesting á því að þessu er þveröfugt farið. Stór meiri hluti þjóðarinnar er eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að ljúka samningaferlinu og sjá hvaða kostir eru í boði og að þjóðin eigi að hafa síðasta orðið um hvort samningurinn verði staðfestur eða ekki.

Niðurstaða nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var í gær á ekki að koma neinum á óvart. Hún er nánast sama niðurstaða og fékkst í könnun blaðsins í ársbyrjun. Það er líka endurtekin staðfesting á því að nær helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og þriðjungur stuðningsmanna Framsóknarflokksins vill halda samningaferlinu áfram. Þjóðin vill fá að vita hvaða kostir eru í boði og hvað hægt er að semja um. Þennan þjóðarvilja ber að virða og ég gat ekki betur greint við umræður utan dagskrár í þinginu í gær en að formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, væri kominn að nýju á sína fyrri skoðun, að þannig ætti að halda á málum, þegar hann brýndi hæstv. ráðherra Jón Bjarnason til dáða og benti honum á að öll fyrirmæli lægju skýr á borðinu frá Evrópusambandinu um að það ætti ekkert að trufla (Forseti hringir.) að menn lykju verkum heima.

Ég fagna þessum sinnaskiptum formanns Sjálfstæðisflokksins. Það er Alþingis og stjórnvalda að tryggja að þessi mál gangi öll fram með skýrum (Forseti hringir.) og skipulegum hætti eins og stór meiri hluti þjóðarinnar vill.