139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma upp í framhaldi af máli hv. þm. Lúðvíks Geirssonar. Það má öllum vera ljóst að það eru afar skiptar skoðanir í samfélaginu öllu um aðild Íslands að Evrópusambandinu, bæði innan stjórnmálaflokka og milli þeirra. Það er ekkert óheilbrigt við það. Enginn stjórnmálaflokkur hér á landi hefur verið stofnaður sérstaklega utan um afstöðuna til Evrópusambandsins. Það eru ólík sjónarmið til aðildar og þau eru styrkur frekar en veikleiki, bæði innan stjórnmálaflokka sem og í samfélaginu öllu að mínu viti.

Allt frá því að Alþingi ákvað að hefja aðildarviðræður hefur mikill meiri hluti landsmanna lýst þeirri afstöðu sinni að ljúka ætti viðræðum og kjósa síðan um aðildarsamning, ný könnun síðast í gær sem staðfesti þetta enn á ný. Á sama tíma og þessi afstaða hefur legið nokkuð skýr fyrir hefur stuðningur við ESB-aðildina sjálfa sveiflast mikið allt frá að um tveir þriðju landsmanna styddu aðild yfir í að sama hlutfall væri andsnúið aðild. Það er athyglisvert.

Hv. þm. Lúðvík Geirsson gerði að umtalsefni sinnaskipti formanns Sjálfstæðisflokksins sem fram komu í umræðu um þetta mál í gær. Ef það er rétt mat hjá honum verð ég að segja að það ber nokkuð nýrra við að verða var við hringlandahátt og ístöðuleysi Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum og í samskiptum við aðrar þjóðir. Hann hefur að minnsta kosti sjálfur talið sig vera kjölfestuna í þessum málaflokki um langt skeið.

Það er hlutverk okkar sem sitjum á Alþingi að tryggja að fyrir þjóðina verði lögð samningsniðurstaða þar sem gætt hefur verið hagsmuna þjóðarinnar í samræmi við samþykkt Alþingis en um leið að veita skýra og trúverðuga sýn á íslenskt samfélag utan ESB og þannig tryggja að þjóðin hafi raunverulegt val um framtíðarleið þegar hún gengur að kjörborðinu í þessu máli, að hún geti valið milli (Forseti hringir.) góðra og heilladrjúgra kosta fyrir íslenska framtíð.