139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

beiðni um fund í heilbrigðisnefnd.

[11:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Maður er búinn að taka nokkuð oft til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta á þessu stjórnlausa haustþingi. Ég ætla samt að benda núna á það sem vel er gert. Hv. þm. Þuríður Backman hefur tjáð mér að við munum á morgun taka fyrir í það minnsta einn af þessum þáttum sem við báðum um á fundi hv. heilbrigðisnefndar. Mér finnst það afskaplega gott og er ánægður með viðbrögð formanns heilbrigðisnefndar hvað þann þáttinn varðar. Hins vegar hvet ég virðulegan forseta og stjórnarmeirihlutann aðeins til að hugsa um forgangsröðina á þessu þingi.

Hinir tveir liðirnir sem eru stórmál sem allir eru sammála um eru nokkuð sem við eigum að skoða núna. Það er hlutverk hv. Alþingis að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og hér er ekki um nein smámál að ræða. Þetta eru stórmál sem snerta þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, nákvæmlega þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni (Forseti hringir.) að halda. Ég ítreka beiðni okkar sjálfstæðismanna um það og hvet virðulegan forseta til að hugsa það mál og fylgja því eftir (Forseti hringir.) um leið og ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka eitt af þessum þrem málum fyrir.