139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Auðvitað eru þær spurningar sem hv. þingmaður beindi til mín of viðamiklar til að ég geti svarað þeim í andsvari en kannski kemst ég til að gera það síðar í dag.

Nú er málflutningur stjórnarandstöðunnar í þessu máli aðeins farinn að tálgast til og því langar mig að spyrja hv. þingmann: Ef við mundum gera breytingar á 2. gr. sem miðuðu að því að breytingar á ríkisstjórn yrðu teknar til umræðu í formi þingsályktunartillögu, sambærilegar þeirri hugmynd sem hv. þm. Eygló Harðardóttir kynnti til sögunnar í gær, mundi það breyta afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins? Mundum við ná einhverjum lendingarfleti á milli flokkanna með því að gera breytingar á 2. gr.? Það væri mjög gott að fá að heyra sjónarmið Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum.

Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur verið lagt til að gera ákveðnar breytingar á 2. gr. miðað við upprunalegan frumvarpstexta og það er ekkert í sjálfu sér því til fyrirstöðu, að minnsta kosti ekki af minni hálfu og ég tala örugglega fyrir munn fleiri nefndarmanna í allsherjarnefnd, menn hafa verið mjög fúsir til að gera breytingar á frumvarpinu. Það væri fróðlegt að heyra ef hv. þm. Birgir Ármannsson telur þetta vera skurðarpunktinn í þessu vegna þess að hann rakti það sérstaklega hvernig þetta væri ekki beint upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða ályktun þingmannanefndarinnar. Hugmyndin á bak við þetta, eins og það liggur fyrir, er að færa praxísinn í þessum efnum nær stjórnarskránni eins og ég kom að í frammíkalli við hv. þingmann. Ég mundi gjarnan vilja heyra viðbrögð hans við því. Ef við breytum 2. gr. breytir það afstöðu Sjálfstæðisflokksins í málinu?