139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:40]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór ítarlega yfir þær breytingar sem verið er að gera á 2. gr. þessa frumvarps og breytinguna frá formfestu, því sem hann vill kalla stöðugleika og festu, í sveigjanleika. Ég er alveg sammála honum í því að þetta er hin mikla breyting. Ítarleg röksemdafærsla hans í dag sem var mjög fróðleg sannfærði mig hins vegar ekki. Ég tek sveigjanleikann fram yfir formið og ég held að það sem hann kallar stöðugleika og festu sé svolítið ýkt í röksemdafærslu hans.

Af því að hv. þingmaður tók það upp að ráðuneyti yrðu stofnuð í skyndi og tók dæmi um að ráðuneyti hefðu verið lögð niður og einhverju breytt haustið 2008, þá finnst mér það svolitlar ýkjur, og þó að það komi málinu ekki beint við þá vil ég benda á að umræða um t.d. atvinnuvegaráðuneyti er ekkert ný. Það hefur verið rætt í mörg ár. Til dæmis var tillaga flutt um það á þinginu 2004–2005 og ég held að hugmyndin um að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt ráðuneyti sé miklu eldri. Það má auðvitað hugsa sem svo að það sé kannski svolítið gamaldags (Forseti hringir.) að vera með ráðuneyti sem kennd eru við tvo af frumatvinnuvegum landsins.

En svo vil ég bara segja að ég sakna þess að hafa ekki heyrt frá þingmanninum (Forseti hringir.) athugasemdir sem hann hefur við aðrar greinar frumvarpsins (Forseti hringir.) og hlakka til að heyra þriðju ræðu hans í þessari umræðu.