139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta. Eins og ég sagði áðan var þessi þáttur ræddur í nefndinni en hins vegar fengu önnur atriði frumvarpsins miklu meiri umræðu. Ég held ég segi satt og hlutlaust frá ef ég lýsi því þannig.

Þegar ég fór yfir þetta fyrir minn hatt, hnaut ég fyrst og fremst um það sem ég nefndi áðan að frumvarpstextinn tekur ekki með skýrum hætti á því hvort ráðherra geti haft afskipti af málsmeðferð hjá sjálfstæðri stofnun sem undir hann heyrir. Það er skýrt í textanum að ráðherra getur ekki haft áhrif á ákvörðun. En það er hægt að greina á milli málsmeðferðar og ákvörðunar og eins og lýst er í nefndaráliti okkar (Forseti hringir.) hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar tel ég að þarna sé að minnsta kosti einn endi sem þarf að hnýta betur.