139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get fyllilega tekið undir það að mikilvægt sé að hafa samráð, sem ekki hefur verið haft í þessu máli, og að margt gott sé í frumvarpinu. Ef menn hefðu gefið sér þann tíma sem eðlilegt hefði verið í undirbúningnum þá hefði ekki þurft að fara í þá miklu umræðu sem er um frumvarpið í dag.

Nú hefur verið talsvert mikil umræða um 2. gr. Í umræðunni hérna í morgun kom fram að menn af hálfu stjórnarliðsins, eins og formaður allsherjarnefndar, hefðu jafnvel talaði um hvort ekki væri hægt að finna einhverja lausn á þessu. En varðandi 4. gr., sem snýr að því að forsætisráðherra hafi vald til að taka einstaka málaflokka af fagráðherra og færa til annars, langar mig að heyra álit þingmannsins á því hvort þar sé ekki líka verið að gera minna úr formfestu og gera hlutina ótryggari og óstöðugri og það sem kannski verra er að (Forseti hringir.) með þeim hætti sé til að mynda búið að gera það algerlega ómögulegt að fylgja eftir ábyrgðarkeðju ráðherra, þ.e. hvaða málaflokki hver ráðherra beri ábyrgð á.