139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum mikið velt því fyrir okkur undanfarna daga hvers vegna ríkisstjórnin leggur slíkt ofurkapp á að koma þessu máli í gegn á þessum tímapunkti, á meðan tugir mála bíða óafgreiddir, miklu brýnni mál, mál sem eru mjög aðkallandi, ég tala ekki um nauðsynlega umræðu um hvernig bregðast eigi við því ótrúlega ástandi sem nú er í fjármálum heimsins og þá sérstaklega því upplausnarástandi sem er ríkjandi í Evrópu.

Þegar ég fylgdist með umræðum um störf þingsins áðan áttaði ég mig á því að það virtist vera einhvers konar firring í gangi. Er hv. þingmaður sammála mér um það eftir að hafa heyrt ræður hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, hv. þm. Lúðvíks Geirssonar, hv. þm. Helga Hjörvars og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, sem virðast vera í fullkominni afneitun um hver staðan er og jafnframt leyfa sér að halda því fram, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, að Íslendingar séu hvort sem er búnir að tapa öllu og eigi þess vegna ekki (Forseti hringir.) að hafa áhyggjur af stöðunni í Evrópu?