139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessi mál tengjast auðvitað vegna þess að við höfum bara þrjá daga eftir af þinginu og þetta mál virðist eiga að taka allan tímann. Þess vegna hljótum við að velta því fyrir okkur af hverju við erum að ræða þetta mál. Hvað er svona mikilvægt við það að heimssögulegir viðburðir megi bíða? Viðburðir sem vekja slíka athygli í erlendum fjölmiðlum og stjórnmálum, eins og hv. þingmaður lýsti, að hver krísufundurinn er haldinn eftir annan þar sem menn taka ákvarðanir um framtíð heillar heimsálfu. Menn virðast ekki hafa tíma til að ræða það hér vegna þessa stjórnarráðsmáls. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvað geri þetta mál svona mikilvægt.

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi evruna, eins og hv. þingmaður bendir á, og sagði að hún sveiflaðist töluvert en væri með allra sterkasta móti núna. Ég sá ekki betur í morgun en hún væri komin í tíu ára lágmark. Hvað er evran gömul? Hún hefur ekki verið lægri í tíu ár. (Forseti hringir.) Ætla menn ekkert að ræða það, heldur halda sig bara við þetta stjórnarráðsmál?