139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ein af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu er að horfið verði frá því sem getið er um í reglugerð um hvernig ráðuneytunum er skipt og þá aðallega hvar stjórnarmálefni lenda. Í lögunum eins og þau eru núna er það gert með reglugerð en í 8. gr. stendur m.a., með leyfi forseta: „enda sé þess jafnan gætt,“ — þ.e. þegar forsætisráðherra gerir tillögur eða reglugerð — „að ráðuneyti lúti málefni, sem eðli sínu samkvæmt eiga þar heima …“

Í þessu frumvarpi er ekkert þessu líkt. Þar er eingöngu sagt að það skuli ákveðið með forsetaúrskurði og síðan kemur fram í síðustu grein frumvarpsins eða undir öðrum ákvæðum að forsætisráðherra setji reglugerðir um nánari framkvæmd laganna. Ég skil það þannig að verið sé að auka vald og heimildir (Forseti hringir.) ráðherra til að færa einstök mál frá ráðherra til einhvers annars ráðherra eða bara til forsætisráðherrans sjálfs ef honum þóknast svo.