139. löggjafarþing — 162. fundur,  13. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði „sem henni þóknast“. Nú er ekki endilega víst að forsætisráðherrar framtíðarinnar verði alltaf konur. Það væri gaman að því en það gæti verið karlmaður. En þetta er hárrétt, og bara vitundin og vissan um að frumvarpið sé orðið að lögum gerir það að verkum að ráðherrarnir verða miklu hlýðnari við forsætisráðherra og þeir munu vita hvað til síns friðar heyrir. Þeir munu vita það að ef þeir mótmæla, t.d. ef hæstv. innanríkisráðherra mótmælir sölunni á jörðinni á Norðausturlandi, veit hann að hann verður bara settur af eða málefnið tekið frá honum, sem er miklu átakaminna. Hann hefur ekkert um það að segja, og svo er það bara ákveðið með atbeina forsætisráðherra. Þetta frumvarp gengur allt út á einræðistilburði hæstv. forsætisráðherra.